Skip to main content
Aldan

Verðbólga hækkar þriðja mánuðinn í röð

By mars 3, 2023No Comments
Verdbolga Upp
Vísitala neysluverð hækkaði um 1,39 prósentur milli mánaða í febrúar samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í byrjun vikunnar. Verðbólga á ársgrundvelli mælist nú 10,2%. Ef horft er fram hjá áhrifum húsnæðis mælist verðbólga 8,9% og hækkar um 1,81% milli mánaða. Verðbólga jókst þriðja mánuðinn í röð, umfram væntingar greiningaraðila. 

Dregið hefur verulega úr áhrifum húsnæðis á vísitölu neysluverðs en húsnæði, hiti og rafmagn hækkar aðeins um 0,25% (0,08% vísitölu áhrif) milli mánaða og þar af hækkar reiknuð húsaleiga, markaðsverð húsnæðis ásamt framlagi vaxtabreytinga, um aðeins 0,1% milli mánaða en greidd húsaleiga, sem lýsir leiguverði, hækkar um 0,9% á milli mánaða. 

Útsölulok hafa áhrif til hækkunar á vísitölunni

Verðmæling í febrúar einkennist jafnan af útsöluáhrifum sem ganga til baka ásamt því að nýjar vörur koma í sölu. Mest hækkaði verð á húsgögnum og heimilisbúnaði milli mánaða, eða um 8,7% (0,53% vísitölu áhrif) og verð á fötum og skóm um 6,8% (0,21% vísitölu áhrif). Ætla má að hluti af þessum hækkunum skýrist af útsölulokum en leita þarf til ársins 2013 til að finna febrúarhækkanir í líkingu við þær sem koma fram í mælingum Hagstofunnar nú í febrúar.  

Verðhækkkanir almennari en áður

Drifkraftar verðbólgu mánaða á milli er ólíkir þeim sem drífa áfram verðbólgu á ársgrundvelli. Dregið hefur úr áhrifum húsnæðis og bensíns og af verðmælingu í febrúar er ljóst að verðhækkanir eru orðnar almennari en áður. Matur og drykkjarvörur hækkuðu um 1,9% (0,3% vísitölu áhrif) í verði í febrúar, dagvara hækkar í verði um það sem nemur 2,1% milli mánaða og innfluttar vörur um 2,9%. Breidd verðbólgu hefur ekki verið meiri síðan á verðbólgutímabili eftir hrun en hátt í 90% af undirliðum vísitölu neysluverðs eru yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Verðbólga á evrusvæðinu dregst saman en sú íslenska hækkar

Ásamt vísitölu neysluverðs í febrúar birtir Hagstofan samræmda vísitölu neysluverðs (HICP) í janúar. Samkvæmt samræmdri evrópskri neysluverðsvísitölu mælist verðbólga á ársgrundvelli á Íslandi 8,1% í janúar en til samanburðar mælist verðbólga á evrusvæðinu 8,6%. Verðbólga á evrusvæðinu hefur dregist saman síðustu þrjá mánuði, sem skýrist að mestu með lækkandi orkuverði, meðan sú íslenska hækkar.  

Í haust var verðbólga á Íslandi næstlægst í Evrópu á samræmdan mælikvarða en nú mælast 12 lönd með lægri verðbólgu en hér á landi. Verðbólga á Íslandi er sambærileg verðbólgu hinna Norðurlandanna.  

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is