Siðareglur Öldunnar stéttarfélags

1. gr.
Markmið og gildissvið
Markmið þessara reglna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem ætlast er til að fulltrúar
Öldunnar stéttarfélags sýni í störfum sínum fyrir félagið.
Í reglum þessum á „fulltrúi Öldunnar stéttarfélags“ við um félaga í stjórnum, nefndum og
ráðum félagsins, trúnaðarmenn og starfsfólk, svo og aðra þá sem koma fram fyrir hönd
félagsins.
Ákvæði siðareglna félagsins eiga við hvort heldur fulltrúi Öldunnar stéttarfélags þiggur laun
fyrir störf sín eða ekki.
Þeir sem taka að sér ábyrgðar-/trúnaðarstörf fyrir félagið skuldbinda sig til að hlíta reglum
þessum.

2. gr.
Meðferð persónuupplýsinga
Þegar unnið er með persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar
sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, skal með þær
upplýsingar farið skv. lögum um persónuvernd nr. 77/2000.
Slíkra upplýsinga skal einungis aflað í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, þær
ekki unnar frekar í öðrum tilgangi og þess gætt að afla ekki eða óska eftir frekari upplýsingum
og gögnum en nauðsynlegt er hverju sinni.
Þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita persónuupplýsingar skal eyða
þeim. Málefnaleg ástæða til varðveislu upplýsinga getur m.a. byggst á lögum um
persónuvernd.
Sjá einnig „vinnureglur Öldunnar stéttarfélags um eyðingu gagna“.

3. gr.
Starfsskyldur
Fulltrúar félagsins skulu vinna að hagsmunamálum félagsmanna í störfum sínum fyrir
Ölduna stéttarfélag. Þeim ber að gegna störfum af alúð og samviskusemi. Fulltrúar eru bundnir
af landslögum, sem og lögum þeirrar félagseiningar sem þeir sinna stjórnarstörfum í. Þeim ber
að gæta þess að fylgja stefnumálum félagsins og verkalýðshreyfingarinnar eftir því sem kostur
er og sannfæring þeirra leyfir.

4. gr.
Hæfi fulltrúa
Um hæfi fer skv. almennum hæfisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Sá sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða
úrlausn þess. Honum er þó heimilt að gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að halda
máli í réttu horfi á meðan staðgengill er ekki til staðar.
Fulltrúa er skylt að tilkynna stjórn telji hann einhverjar ástæður vera sem leitt geti til þess
að hann yrði metinn vanhæfur eða til efasemda um hæfi hans. Fulltrúi sem efasemdir um hæfi
varðar tekur ekki þátt í umræðu eða ákvörðun þar um.
Stjórn eða nefnd sem um ræðir skal sjálf meta vanhæfi viðkomandi fulltrúa. Ef fulltrúi
telst vanhæfur skal hann víkja af fundi á meðan mál er til umfjöllunar. Fulltrúi félagsins skal
leggja fram þær upplýsingar sem stjórn/nefnd metur nauðsynlegar til að framkvæma
ofangreint mat.
Víki fulltrúi sæti við meðferð máls skal geta um það í fundargerð og jafnframt skal
tilgreina hver er ástæða vanhæfis. Þá skal greina frá því hver tekur sæti í hans stað ef við á.

5. gr.
Þagnarskylda
Fulltrúum Öldunnar stéttarfélags ber að gæta þagnarskyldu um það sem þeir kunna að
verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara. Stjórnarmenn skulu undirrita yfirlýsingu um
trúnaðarskyldu þegar þeir taka sæti í aðalstjórn félagsins.
Fulltrúi félagsins skal halda trúnað um þau mál sem eru rædd og tekin til ákvörðunar á
fundum.
Þeir sem taka að sér störf fyrir hönd félagsins skuldbinda sig til að hagnýta sér hvorki í
eigin þágu né annarra, gögn, vitneskju eða hugmyndir sem þeir fá aðgang að í störfum sínum
fyrir félagið. Þeir skulu gæta þess sérstaklega að gefa ekki upplýsingar um félagsmenn og
einstök mál sem eru til meðferðar hjá félaginu.
Þagnarskylda helst þó fulltrúi eða starfsmaður láti af störfum eða verkefnum sé lokið.

6. gr.
Birting og dreifing skjala
Fulltrúum félagsins er óheimilt að birta eða dreifa skjölum sem varðveitt eru í
vinnuumhverfi starfsfólks og stjórnar – enda sé um ófrágengin vinnuskjöl að ræða. Skjöl sem
hafa verið afgreidd af aðalstjórn eða viðeigandi stjórn eða nefnd má ekki birta opinberlega nema
með samþykki viðkomandi stjórnar eða nefndar.
Fulltrúi félagsins sem tekur við gögnum sem leynt skulu fara, skal varðveita þau með
tryggum hætti og er ábyrgur fyrir því að gögnin og upplýsingar af þeim komist ekki í hendur
þriðja aðila.
Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum er hann gegnir fyrir félagið, er honum skylt að skila
af sér öllum gögnum er trúnaðarstarf hans varða.

7. gr.
Gjafir, fríðindi og boðsferðir
Fulltrúum Öldunnar stéttarfélags er óheimilt að þiggja eða sækjast eftir gjöfum, fríðindum
eða fjármunum frá aðilum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi þeirra fyrir félagið og
mögulega mætti tengja við mútur. Ákvarðanir um þátttöku í boðs- eða kynnisferðum skulu
teknar af stjórn.

8. gr.
Hagsmunatengsl
Fulltrúum Öldunnar stéttarfélags er óheimilt að taka ákvörðun um viðskipti við aðila
er líta má á sem tengda þeim sjálfum. Með tengdum aðila er átt við fyrirtæki í eigu þeirra
sjálfra, maka eða barna og tengdabarna og/eða annarra náinna skyldmenna. Slíkar ákvarðanir
skulu teknar af stjórn félagsins.
Fulltrúi félagsins má í skjóli hlutverks síns ekki gera neinar þær ráðstafanir sem eru til
þess fallnar að afla aðilum honum tengdum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra eða á
kostnað félagsins.

9. grein
Viðurlög við brotum
Telji fulltrúi eða félagsmaður siðareglur félagsins hafa verið brotnar skal hann vekja
athygli stjórnar á málinu. Stjórn er þá skylt að rannsaka málið og getur kallað til
utanaðkomandi aðila s.s. lögmann og/eða endurskoðanda til ráðgjafar.
Sé fulltrúi í stjórn grunaður um brot á siðareglum skal hann víkja sæti við meðferð
málsins sbr. ákvæði 4. gr. um hæfi.
Viðkomandi starfsmaður eða fulltrúi skal fá tækifæri til að standa fyrir máli sínu og
svigrúm til að afla gagna um mál og leggja fyrir stjórn.
Telji stjórn að fulltrúi félagsins hafi brotið siðareglur félagsins skal hún ákveða
viðbrögð/viðurlög við brotinu. Leiki grunur á að um refsiverða háttsemi geti verið að ræða
skal farið eftir verklagsreglum stjórnar Öldunnar um viðbrögð.

10. gr.
Staðfesting og endurskoðun
Siðareglum er einungis breytt á aðalfundi félagsins.
Siðareglur þessar skulu teknar til umræðu á stjórnarfundi í upphafi árs og
endurskoðaðar ef þurfa þykir.

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins 28.04.2015.