Ölfusborgir


Aldan stéttarfélag á og rekur orlofshús í Ölfusborgum ásamt Stéttarfélaginu Samstöðu á Blönduósi.

Ölfusborgir eru í nágrenni Hveragerðis og þaðan er einnig stutt í marga helstu ferðamannastaði og náttúruperlur á Suðurlandi,  má þar nefna Gullfoss, Geysi, Skálholt og Þingvelli. Einnig er stutt á Selfoss og ýmislegt að sjá í sveitunum í kring,   t.d. sjávarþorpin  Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri og marga sögufræga staði í Árnessýslu.

Húsið er 58 fm að stærð og skiptist í stofu með eldhúskrók, baðherbergi og þrjú svefnherbergi. Svefnaðstaða er fyrir 6 – 7 manns og borðbúnaður fyrir 8. Sjónvarp, uppþvottavél og örbylgjuofn eru til staðar. Sólpallur og sólstofa eru við húsið, sem og heitur pottur og gasgrill. Afruglari frá 365-miðlum er í húsinu en leigutakar borga sjálfir fyrir notkun á þeirra efni. Kynnið ykkur áskriftarmöguleika hjá 365-miðlum sem m.a. bjóða upp á 3-daga áskrift.

Hægt er að leigja lín og handklæði í þjónustumiðstöð svæðisins en þar er einnig hægt að fá lánað barnarúm ef pantað er fyrirfram.

Við Ölfusborgir eru rólur, rennibrautir, trampolín og sparkvöllur fyrir börnin og umhverfið allt kjörið til útivistar. Ýmislegt er í boði fyrir ferðamenn, í Hveragerði er t.d. sundlaug með vatnsrennibraut, blómaverslanir, gróðurhús og margt fleira. Stutt er í hestaleigu og veiði.

Um Ölfusborgir
Orlofsbyggðin að Ölfusborgum er einn margra sigra verkalýðsbaráttunnar en á fjárlögum 1957 fékkst ein milljón króna til byggingar orlofsheimilis verkalýðsfélaga. Árið eftir lét ríkisstjórnin hreyfingunni í té land undir heimilin og árið 1962 var loks undirritaður samningur milli ríkisins og ASÍ um leigu á 12 hektara spildu úr landi Reykjatorfu í Ölfushreppi. Í fyrsta áfanga voru byggð 22 hús og árið 1965 voru þau leigð til fyrstu félagsmannanna. Seinna voru byggð 16 hús til viðbótar svo nú eru húsin alls 37, þar af er eitt hús með góðu aðgengi fyrir hjólastóla.
Það hús er í eigu Sameignarfélagsins og er leigt út af starfsmönnum. Upplýsingar í síma 483-4260 milli 12:00-16.00 virka daga. Húsið er mjög rúmgott, stofa og eldhús eru í einu rými, tvö svefnherbergi eru í húsinu og baðherbergi með sturtu. Húsið er leigt allt árið um kring með helgarleigum á veturnar og vikuleigum á sumrin. Eingöngu er leigt til félagsmanna stéttarfélaga sem eiga hús á orlofssvæðinu.

Athugið! Allt dýrahald er stranglega bannað á staðnum. Umsjónarmanni er heimilt að vísa fólki með dýr í burtu.

Hér má skoða heimasíðu Ölfusborga en þar má finna margt fróðlegt, bæði er varðar umgengni en einnig um svæðið og umhverfi þess.

Vinsamlega kynnið ykkur reglur orlofsbyggðarinnar en þær má lesa hér

       

 

Nokkrar vegalengdir frá Ölfusborgum

Selfoss 12 km
Geysir 74 km
Gullfoss 84 km
Laugarvatn 52 km
Stokkseyri 26 km
Skálholt 51 km
Þingvellir 58 km
Þorlákshöfn 24 km
Reykjavík 47 km
Selvogur 30 km