Skip to main content
Aldan

Gagnagrunnur um kjarasamninga!

By nóvember 17, 2022No Comments

Mynd: Fjórir nemendur í Háskóla Íslands unnu að gagnagrunninum um kjarasamninga með Ríkissáttasemjara, Alexander Guðmundsson, Hanna Lind Garðarsdóttir, Einar Páll Pálsson og Karitas Marý Bjarnadóttir. 

Ríkissáttasemjari hefur opnað gagnagrunn á vef sínum www.rikissattasemjari.is þar sem hægt er að nálgast texta allra gildandi kjarasamninga á Íslandi og margskonar tölfræði um samningana og kjarasamningsgerðina. Tilgangurinn er að auðvelda launafólki, launagreiðendum og öðrum áhugasömum, aðgang að ítarlegum upplýsingum um gildandi kjarasamninga. Gagnagrunnurinn veitir yfirlit yfir hvenær mismunandi samningar renna út og gefur innsýn í margskonar tölfræði varðandi kjarasamningagerðina. Gagnagrunnurinn er mikilvægur m.a. vegna þess að stundum kann að vera snúið að nálgast gildandi kjarasamninga og í mörgum tilvikum breytir nýjasti kjarasamningur aðeins hluta af kjörum þeirra sem hann nær yfir – og í gagnagrunninum er hægt að lesa gildandi kjarasamninga í samhengi við fyrri samninga. Upplýsingar í grunninum byggja á kjarasamningum sem til eru hjá ríkissáttasemjara, en skv. lögum er aðilum vinnumarkaðarins skylt að senda ríkissáttasemjara alla gerða kjarasamninga.

Fjórir nemar í Háskóla Íslands unnu að gagnagrunninum með starfsfólki ríkissáttasemjara. Tveir nemendur í tölvunarfræði, Alexander Guðmundsson og Einar Páll Pálsson, og tveir nemendur í mannauðsstjórnun, Hanna Lind Garðarsdóttir og Karitas Marý Bjarnadóttir. Verkefnið fékk styrk frá RANNÍS.

„Ég er sannfærður um að gagnagrunnurinn muni nýtast launafólki, einstaka launagreiðendum, verkalýðshreyfingunni og samtökum atvinnurekenda frábærlega vel þar sem það hefur til dæmis verið erfitt að nálgast fullnægjandi upplýsingar um alla gildandi kjarasamninga, hvenær þeir renna út og hvernig þeir tengjast fyrri samningum. Það hefur verið ævintýri að vinna að þessu skemmtilega verkefni með fjórum algerlega frábærum háskólanemum“, segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.

Á tölfræðisíðu gagnagrunnsins kemur fram að á Íslandi eru 353 kjarasamningar í gildi og í 99,4% tilvika voru samningar útrunnir áður en nýjir samningar voru undirritaðir.

Ríkissáttasemjari áformar að bæta smám saman eldri samningum inn í gagnagrunninn uns hann inniheldur alla samninga sem embættið hefur í vörslu sinni, allt frá árinu 1905.

Þau sem hafa áhuga geta fengið kynningu á gagnagrunninum, vinsamlegast sendið línu til elisabet@rikissattasemjari.is

Mynd: Fjórir nemendur í Háskóla Íslands unnu að gagnagrunninum um kjarasamninga með Ríkissáttasemjara, Alexander Guðmundsson, Hanna Lind Garðarsdóttir, Einar Páll Pálsson og Karitas Marý Bjarnadóttir.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is