Skip to main content
Aldan

Samráðsfundur um lífeyrismál

By desember 14, 2023No Comments
Lifeyrir Atitle Card
Fundur samráðshóps Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) um lífeyrismál fór fram þann 6. þessa mánaðar. Á dagskrá voru fjögur erindi um lífeyrismál.

Samráðshópurinn kemur reglulega saman og sagði Þórir Gunnarsson, fundarstjóri og hagfræðingur hjá ASÍ, ánægjulegt að festa væri að komast á þetta samstarf á ný eftir COVID-faraldurinn.

Már Guðmundsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri, flutti erindi sem hann nefndi „Lærdómar sögunnar og áskoranir lífeyrissjóðakerfisins“.

Í erindinu leitaðist Már við að svara eftirfarandi spurningum:

  • Var kerfið rétt hannað og borgaði sjóðsöfnun sig? 
  • Hvers eðlis eru þeir sjóðir sem lífeyriskerfið hefur skapað? 
  • Hversu vel hefur „stjórnkerfi” lífeyrissjóðakerfisins reynst? 
  • Hver eru áhrif lífeyrisjóðakerfisins á þjóðarbú og fjármálakerfi? 

Már fjallaði einnig um nokkrar áskoranir framtíðar og staldraði einkum við raunávöxtun framtíðar gagnvart réttindum sjóðfélaga og ásættanlegt jafnvægi á því sviði, bætta upplýsingamiðlun til sjóðafélaga einkum varðandi samband réttinda og hvernig þau eru skilyrt við ávöxtun og „sambýli” séreignar og samtryggingar. 

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, flutti erindi um sjálfbæran atvinnurekstur og skipulagt samtal við haghafa. Fjallaði Ólafur m.a. um hugmyndafræði ábyrgra fjárfestinga og þær áskoranir sem henni fylgja fyrir íslensku lífeyrissjóðina.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, flutti erindi um siðferðileg álitaefni og hvernig skipuleggja má vinnu þeim tengda. Hrefna Ösp vék m.a. að nýjum viðmiðum í rekstri fyrirtækja í samræmi við þjóðfélagsbreytingar og sagði frá umfangsmiklum inngripum Evrópusambandsins í formi löggjafar.

Margrét Kristinsdóttir, forstöðumaður lífeyrissviðs Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, fjallaði um örorkulífeyri og áskoranir og tækifæri honum tengdar. Margrét sagði frá þróun á þessu sviði og vék m.a. að fjölgun örorkulífeyrisþega frá árinu 2000. Kom fram í máli hennar að aukning sé mest hjá konum á aldrinum 30 – 40 ára og körlum sem komnir eru yfir sextugt. Konur eru 71% örorkuþega og geð -og stoðkerfissjúkdómar valda um 60% örorkutilfella. 

Síðasta erindi fundarins flutti Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttindasviðs Stapa. Erindi sitt nefndi hún „Örorkulífeyrir hjá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun – mismunur, víxlverkun og flækjustig“. Í máli hennar kom m.a. fram að rétt rúmlega helmingur örorkulífeyrisþega fékk árið 2021 greiðslur frá lífeyrissjóðum. Árið 2022 greiddu lífeyrissjóðir tæpa 29 milljarða króna i örorkulífeyri sem svarar til 22% alls örorkulífeyris að frádregnu örorkuframlagi ríkisins sem þá nam rúmum fimm milljörðum króna.    

Frá 2016 hafa nær allar hækkanir til örorkulífeyrisþega komið frá sjóðunum en greiðslur Tryggingastofnunar fara lækkandi. 

Fundurinn var vel sóttur auk þess sem margir kusu að fylgjast með streymi frá honum. 

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is