Skip to main content
Aldan

Pistill forseta – Skekkjan og lausnin

By febrúar 4, 2022No Comments

Hagnaður Landsbankans á síðasta ári var tæpir 29 milljarðar króna. Lagt verður til á aðalfundi að greiða 14,4 milljarðar í arð til hluthafa. Ríkið, þ.e.a.s. við, á 98,2% í bankanum. Við vorum að hagnast um 29 milljarða og við munum ákveða hvað við ætlum að nýta þessa peninga í fyrir okkur. Hagnaðurinn er að hluta tilkominn vegna vaxta- og þjónustgjalda sem við höfum greitt bankanum, vegna vaxtamunar og gjalda sem bankinn okkar leggur á okkur. Nú er neyðarástand að skapast víða hjá okkur. Mörg okkar þurfa á stuðningi að halda vegna hækkandi húsnæðiskostnaðar og almennrar dýrtíðar. Það er því eðlilegt að þessir peningar sem við eigum aukalega í bankanum okkar verðir nýttir til að létta undir með þeim okkar sem á þurfa að halda. Í framhaldi getum við svo tekið ákvörðun um að bankinn okkar rukki okkur ekki umfram það sem eðlilegt er. Því arðgreiðslur til hinna fáu er ekkert annað en skattlagning á okkur öll.

Dýrtíðin skellur á víða um heim og harðsvíruðustu einstaklingshyggjustjórnir létta nú undir með almenningi. Þar má nefna Breta sem bregðast við því sem þeir kalla „cost-of-living crisis“ – eða lífskjarakreppu – með beinum stuðningi við heimilin. Önnur lönd fara svipaða leið og má þar nefnda næstu nágranna okkar Norðmenn, en heimili þar í landi glíma við óheyrilegan orkukostnað eftir markaðsvæðingu orkunnar. Hér á landi vegur húsnæðiskostnaður þyngst og ljóst er að seðlabankinn gerir sig nú líklegan til að hækka vexti í næstu viku. Eftir ákall til stjórnvalda í margar vikur bíðum við enn eftir viðbrögðum við okkar eigin lífskjarakreppu. Á meðan er bankinn okkar að mala gull svo ekki sé minnst á aðra banka sem njóta þess nú að bankaskatturinn var afnuminn. Atvinnulífið og samfélagið allt hafa gengið í gengum djúpa kreppu en það sér ekki högg á vatni í hagnaðartölum bankanna. Það þarf ekki margra ára próf í hagfræði til að sjá skekkjuna og jafnframt lausnina.

Góða helgi,
Drífa

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is