Verðlag á innlendum vörum hækkaði um 0,23% milli mánaða en 0,39% á erlendum vörum. Verðlag á erlendu og innlendu sælgæti og erlendu súkkulaði hækkaði um rúm 0,3%, en verðlag á íslensku súkkulaði um 1,4%. Verðlag á ýmsum vöruflokkum er svo gott sem óbreytt milli mánaða. Þannig mælast litlar hækkanir á mjólkurvörum milli mánaða, einnig á hreinlætisvörum og hveiti, grjónum og korni.
Jafngildir 3,7% verðhækkun á ársgrundvelli
Verðlag hækkar mest í Kjörbúðinni (0,71%) og Krambúðinni (0,52%) en lækkar í 10-11 (0,13%). Í stærri verslunum hækkaði verðlag í Bónus um 0,48%, í Nettó um 0,40%, í Hagkaup um 0,17% og í Krónunni um 0,08%. Hækkun frá undirritun kjarasamninga jafngildir 3,7% hækkun á matvöruverði á ársgrundvelli.
Mæling Verðlagseftirlitsins byggir á yfir tuttugu þúsund verðsamanburðum í 11 verslunum. Alls höfðu verð hækkað í um 1.400 tilfellum en lækkað í um 600 tilfellum. Tíðastar voru hækkanirnar í Krambúðinni (14% af skoðuðum vörum) og Bónus (9,7%) og fátíðastar í 10-11 (1,6%) og Extra (0,5%). Lækkanir voru tíðastar í Kjörbúðinni (4,7%) og Krónunni (4,8%) og fátíðastar í Fjarðarkaupum (1,3%), 10-11 (1,3%) og Extra (0,6%).
Keimlíkar breytingar frá áramótum
Sé horft frá janúar hefur hækkunartaktur verið með svipuðu móti og frá undirritun kjarasamninga, eða um 3,5%. Alls hefur verðlag á matvöru hækkað um 0,87% frá janúar í verðmælingum eftirlitsins. Sú mæling byggir á 22.000 verðsamanburðum í 11 verslunum.
Frá janúar hefur verðlag á grænmeti, ávöxtum og hnetum, bæði innlendum og erlendum, hækkað um 2,2%. Verð á íslensku súkkulaði hækkar um allt frá 0,02% í 10-11 upp í 9,51% í Heimkaupum. Almennt hækkar verðlag á íslensku súkkulaði um 5,4%.
Frá janúar hefur verð hækkað á um 6.400 vörum en lækkað á um 2.500 vörum, en verið óbreytt á um 13.000 vörum. Tvær verslanir skera sig úr: í 10-11 breyttist verð á aðeins 44 vörum en var óbreytt á 1.188 vörum, en í Extra breyttist verð á 39 vörum en var óbreytt á 1657 vörum. Í öðrum verslunum hækkaði verð á um eða yfir 30% vara.
Um aðferðafræði
Verðlagsbreytingar eru reiknaðar með vigtun vöruflokka og verslana. Þegar talað er um breytingu á verðlagi er um að ræða veginn útreikning, en breyting á verði merkir stakan samanburð eða óvegið meðaltal.
Við verðsamanburð eru annars vegar skoðaðar breytingar á nýjustu mælingum verðlagseftirlitsins frá viðmiðunartímabilinu 6-13. mars og hins vegar frá meðalverði í mælingum verðlagseftirlitsins í janúar. Þessi verð eru borin saman við nýjustu verð sem verðlagseftirlitið hefur aflað, sem eru að jafnaði frá 13. apríl 2024, en frá 15. apríl þegar vegið er eftir markaðshlutdeild verslana.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.