Í nýlegu mánaðaryfirliti var að finna samantekt á nýjum gögnum Hagstofunnar um laun og framleiðni í hagkerfinu. Gögnin frá Hagstofunni sýna að framleiðni hækkaði umfram laun milli 2020 og 2021. Framleiðni og laun eru skilgreind sem framleiðsla og laun auk launatengdra gjalda á hverja unna vinnustund.
Framleiðni jókst um 4,1% í einkageiranum
Í einkageiranum jókst framleiðni um 4,1% á meðan að laun hækkuðu um 2,6%. Þetta gerir að verkum að launahlutfall lækkaði milli ára. Launahlutfall er hefðbundinn mælikvarði á skiptingu verðmætasköpunar milli launafólks og fjármagnseigenda. Það mælir hversu hátt hlutfall verðmætasköpunar fer til launafólks. Í fyrra var launahlutfallið rétt yfir langtímameðaltali. Síðan 2017 hefur launahlutfall hér á landi haldist nokkuð stöðugt. Þessar nýju tölur sýna því að laun hafi þróast í takt við framleiðni á síðustu árum.
Launahlutfallið við langtímameðaltal
Nokkuð hefur borið á umræðu um að laun á Íslandi séu þau hæstu sem þekkist og að laun hafi kerfisbundið hækkað umfram framleiðnivöxt. Hvorugt er rétt. Frá aldamótum hafa laun og framleiðni í einkageiranum haldist í hendur. Frá 2000 til 2021 tvöfaldaðist framleiðni á sama tíma og laun hækkuðu um 88%. Í nýlegri greinargerð sem lögð var fram á fundi Þjóðhagsráðs má lesa nánar um gögnin.