Meirihluti er fyrir því á danska Þjóðþinginu (d. Folketinget) að komið verði á „leigubremsu“ til að bregðast við hækkun húsaleigu sem mikil verðbólga veldur. Hækkanir á húsaleigu verða takmarkaðar við 4% á ári næstu tvö árin en undanskildir verða þeir leigusalar sem sýnt geta fram á útgjöld vegna húsnæðisins umfram þá upphæð.Að sögn danska ríkisútvarpsins hefur meirihluti þingheims lýst sig samþykkan þessu pólitíska samkomulagi sem taka mun til um 160.000 leigjenda. Að baki sáttmálanum standa jafnaðarmenn sem fara fyrir minnihlutastjórn í Danmörku, Sósíalíski þjóðarflokkurinn, Einingarlistinn og Radikale Venstre.
„Leigubremsan“ gildir jafnt um núverandi og tilvonandi leigusamninga. Hafi leiga hækkað á síðustu þremur mánuðum mun viðkomandi leigusali þurfa að draga hana til baka. Að auki tekur samkomulagið einungis til þeirra samninga sem eru vísitölubundnir og húsnæðis í eigu einkaaðila. Undanþága verður þó veitt þeim leigusölum sem sýnt geta fram á að kostnaður vegna húsnæðis hafi hækkað umfram fjögur prósent.
„Þetta er samkomulag sem mun slá á kvíða allt að 160.000 danskra leigjenda sem ella hefðu getað orðið fyrir svo miklum hækkunum húsaleigu að þeir hefðu þurft að yfirgefa heimili sín,“ sagði Christian Rabjerg Madsen, innviða- og húsnæðisráðherra, í viðtali við danska ríkisútvarpið laugardaginn 26. ágúst. Hann kvað mikla verðbólgu í Danmörku komna til vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
„Við teljum að spákaupmenn á húsnæðismarkaði eigi ekki að geta aukið enn gróða sinn vegna verðbólgunnar og þess neyðarástands sem ríkir,“ sagði Mai Villadsen, pólitískur talsmaður Einingarlistans, sem bætti við að hún væri afar ánægð að samkomulagið væri í höfn.
Ekki eignaupptaka
Áður en samningaviðræður hófust á Þjóðþinginu höfðu þingmenn Radikale Venstre og Venstre-flokksins lýst áhyggjum af því að „leigubremsa“ gæti falið í sér eignaupptöku þar sem hún varðaði tekjur sem leigusalar hefðu reiknað með. Í því tilviki hefði ríkissjóður þurft að bæta viðkomandi skaðann. Í áliti danska dómsmálaráðuneytisins kemur fram að ekki sé unnt að halda því fram að eignaupptaka felist í „leigubremsunni“ þar sem gert sé ráð fyrir að leigusalar geti farið fram yfir 4% hámarkið geti þeir hinir sömu sýnt fram á kostnað vegna leiguhúsnæðis umfram þá upphæð.
Venstre-flokkurinn kveðst andvígur samkomulaginu og telur að frekar hefði átt að auka húsnæðisstuðning við leigjendur í gegnum velferðarkerfið. Segir talsmaður flokksins það óeðlilegt að hátekjufólki í dýru leiguhúsnæði sé veitt aðstoð með þessum hætti.
Ársverðbólgan í Danmörku mældist 8,7% í júlí og hefur ekki verið meiri frá 1983.