Skip to main content
Aldan

ASÍ og SA gegn afnámi jöfnunargjalds og réttindaskerðingu

By október 10, 2024No Comments

Alþýðusamband Ísland (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) leggjast  gegn því að fjárframlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða verði lækkað og síðar afnumið líkt og boðað er í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn SA og ASÍ sem send hefur verið stjórnvöldum.

Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu kemur fram að fella eigi niður framlag úr ríkissjóði til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóðanna og hækka samsvarandi hlutdeild lífeyris- og slysatrygginga almannatrygginga í tryggingagjaldinu í kjölfarið.

Miðstjórn ASÍ hefur þegar mótmælt þessum áformum á þeim forsendum að þau muni skerða stórlega lífeyrisréttindi láglauna- og verkafólks.

Í sameiginlegri umsögn SA og ASÍ segir að samtökin telji að „afnám framlagsins muni leiða til þess að ávinnsla lífeyris launafólks þeirra sjóða þar sem örorka er algengust verði takmarkaðri og lífeyrisgreiðslur skertar til elli- og örorkulífeyrisþega sömu sjóða. Muni það koma sérstaklega niður á sjóðum verkafólks innan ASÍ. Í þessu efni skiptir meginmáli að jöfnunarframlag ríkisins nýtist til þess að stéttir verka- og láglaunafólks beri ekki ábyrgð umfram sjóðsfélaga annarra lífeyrissjóða á afkomu þess viðkvæma hóps sem reiðir sig á framfærslu örorkutryggingar.“


Samstaða um meginábyrgð ríkisins
Minnt er á að almenn samstaða sé um að ríkið beri meginábyrgð á málaflokki örorku í íslensku samfélagi. Hluti  kostnaðar vegna örorku sé hins vegar greiddur úr lÍfeyrissjóðum sem þannig létti undir með byrðinni af hinu opinbera. Aðild að lífeyrissjóðum á samningssviðinu sé kjarasamningsbundin, sem valdi því að misjöfn örorkubyrði leggist þyngra á suma sjóði. Til þess að skapa einingu um lífeyriskerfið hafi því þótt mikilvægt að ríkið rækti hlutverk sitt í örorkumálum m.a. með því að jafna örorkubyrði.

Í umsögninni er forsaga jöfnunarframlagsins rakin ítarlega. Þá er fjallað um mikilvægi jöfnunarframlagsins og það sagt „óumdeilt“.  Loks er fjallað um ábyrgð ríkisvaldsins og þær hugmyndir sem reglulega komi fram um að nýta lífeyrissjóði til að fjármagna allt önnur verkefni og starfsemi en þeim sé ætlað.

Sameiginlega umsögn ASÍ og SA má nálgast hér.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is