Undanfarna mánuði hefur borið á tillögum sem ætlað er að leysa mannekluvanda á leikskólum og auka velferð barna með meiri samveru með foreldrum. Tillögurnar spretta ekki upp úr tómarúmi heldur hefur vanfjármögnun og skammsýni einkennt málaflokkinn um árabil sem bitnað hefur á kjörum og aðbúnaði starfsfólks leikskólanna. Miðstjórn ASÍ leggur áherslu á að það er á ábyrgð sveitafélaganna og stjórnvalda að tryggja fjármögnun leikskólakerfisins og viðunandi aðbúnað starfsfólks.
Bæði Kópavogsbær og Akureyrarbær hafa samþykkt nýjar gjaldskrár sem fela í sér gjaldfrjálsa sex klukkustunda leikskólavist barns. Á móti hækkar gjald þeirra foreldra sem þurfa á lengri vist barna að halda. Samhliða gjaldskrárbreytingum hefur þjónusta verið skert með fjölgun svokallaðra skráningadaga.
Breytingarnar endurspegla með engu móti stöðu foreldra á vinnumarkaði, en yfir 90% barna eru á leikskóla meira en sex klukkustundir á dag. Meðan hátekjufólk með sveigjanlegan vinnutíma og sterkt bakland getur nýtt sér gjaldfrjálsan leikskóla kemur breytingin niður á láglaunafólki, innflytjendum og einstæðum foreldrum í formi hærri gjalda og skertrar þjónustu.
Breytingar munu hafa neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Þriðjungur kvenna er nú þegar í hlutastörfum og rannsóknir sína að umönnunarábyrgð er helsta ástæða þess að konur eru í skertu starfshlutfalli. Með aðgerðunum varpa sveitarfélögin mannekluvanda leikskólanna yfir á foreldra og þá einkum mæður í stað þess að taka á mannekluvandanum innan sinna raða. Þannig vinnur breytingin gegn jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
Miðstjórn ASÍ bendir á mótsögnina í hugtakinu „gjaldfrjáls leikskóli“ sem aðeins gagnast litlum hluta foreldra sem sterkt standa fjárhagslega, á kostnað láglaunafólks og því hætta á að aðgerðirnar auki stéttskiptingu. Miðstjórn varar jafnframt við því að með breytingunum er áfram grafið undan velferðarstoðum samfélagsins og forsendum mikillar atvinnuþátttöku á Íslandi.