Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu heilbrigðismála í landinu og fordæmir þá forgangsröðun sem birtist í fjármálafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.Dag hvern berast fregnir af ófremdarástandi í heilbrigðiskerfi landsmanna. Þrátt fyrir áköll starfsfólks og sérfræðinga hafa stjórnvöld árum saman kosið að leiða hjá sér augljósan vanda og skella skollaeyrum við réttmætum kröfum almennings um úrbætur. Nú er svo komið að Sjúkratryggingar Íslands standa ekki undir nafni þar sem landsmenn fá ekki þá þjónustu sem greiðslum þeirra í samneysluna er ætlað að tryggja.Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis eru biðlistar óviðunandi í flestum aðgerðaflokkum. Þetta ástand er með öllu óboðlegt og minnir miðstjórn á að heilsu og velferð fjölda fólks er beinlínis ógnað sökum forgangsröðunar stjórnvalda.Nýlega kvaðst formaður Læknafélags Íslands búast við „neyðarástandi í heilbrigðiskerfinu vegna manneklu”. Formaðurinn líkir ástandinu við „vítahring” þar sem gríðarlegt álag fækki starfsfólki og við það aukist álag á þá sem eftir standa. Samkvæmt tölum Evrópusambandsins eru barnalæknar hlutfallslega hvergi jafnfáir í álfunni og hér á landi. Hlutfall heimilislækna er litlu skárra.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fordæmir að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er réttmætum kröfum almennings um forgangsröðun verkefna og útgjalda enn á ný hafnað. Álögur eru auknar á launafólk en staðinn er vörður um sérhagsmuni útgerðar og fjármálastofnana. Þessi sýn til launafólks og hlutverks stjórnvalda hefur löngum verið undrunarefni en hefur nú náð stöðu raunverulegrar samfélagsógnar. Miðstjórn hafnar því að aukin einkavæðing sé lausn við vandanum.
Miðstjórn krefst þess að stjórnvöld standi undir þeirri ábyrgð sem þau hafa gengist undir og bregðist nú þegar við alvarlegri stöðu heilbrigðismála og yfirvofandi neyðarástandi.