Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands fordæmir harðlega ákvörðun stjórnvalda um að afnema framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða frá og með næstu áramótum. Með þessari ákvörðun er brotið gegn samkomulagi sem gert var við verkalýðshreyfinguna árið 2005 og átti að tryggja að réttindaávinnsla væri jöfn milli sjóða.
Þessi niðurstaða bitnar sérstaklega á verkamannasjóðum þar sem örorkubyrðin er mest. Þar safnar verkafólk, sem vinnur erfiðisvinnu og stendur undir samfélaginu með líkamlegu átaki, allt að 15% lakari lífeyrisréttindum en sjóðsfélagar annarra lífeyrissjóða – þrátt fyrir að greiða nákvæmlega sama iðgjald. Það er alvarlegt brot á jafnræðisreglu og felur í sér kerfisbundna mismunun á hendur verkafólki.
Verkamannasjóðirnir hafa látið reikna út að það þurfi tæpa 10 milljarða króna í árlegt framlag til jöfnunar á örorkubyrðinni til að þeir standi jafnfætis öðrum lífeyrissjóðum. Í stað þess að tryggja slíkt jafnræði verður 4,6 milljarða framlagið, sem enn var eftir, nú fellt alveg niður.
Stjórnvöld sem kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð geta ekki með trúverðugleika haldið því fram að þau standi vörð um hagsmuni verkafólks ef þau láta slíkt óréttlæti viðgangast. Það er með öllu óásættanlegt að íslenskt verkafólk, sem vinnur erfiðisvinnu alla sína starfsævi, sé sett í verri stöðu en aðrir þegar kemur að lífeyrisréttindum.
Starfsgreinasamband Íslands mun og ætlar ekki að láta þetta miskunnarlausa óréttlæti átölulaust.