Skip to main content
Aldan

Ályktanir 32.þings SSÍ

By nóvember 8, 2021No Comments

Tveggja daga þingi Sjómannasambandsins lauk síðastliðinn föstudag og voru tvær ályktanir samþykkar, annars vegar um kjara- og atvinnumál og hins vegar um öryggis- og tryggingamál sjómanna.

Ályktun 32. þings Sjómannasambands Íslands um kjara- og atvinnumál sjómanna
32. þing Sjómannasambands Íslands, haldið 4. og 5. nóvember 2021, vítir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi harðlega fyrir að í áraraðir að ekki sé gerður kjarasamningur við sjómenn um þau sjálfsögðu réttindamál sem önnur samtök launafólks hafa þegar samið um. Nú eru liðin tæp 2 ár frá því kjarasamningar sjómanna runnu út. Vegna þvergirðingsháttar útgerðarinnar er ekki útlit fyrir að samningar náist án átaka.
Þingið krefst þess að SFS gangi nú þegar til raunverulegra viðræðna við samninganefnd Sjómannasambands Íslands með það að markmiði að ljúka samningagerðinni. Þingið minnir á að hagnaður útgerðarinnar var 181.000 milljónir króna á síðustu fimm árum eða um 36.000 milljónir króna á ári að meðaltali. Að mati SFS þolir útgerðin alls ekki hógværa kröfu sjómanna um 3,5% viðbótarframlag í lífeyrissjóði. Kostnaðaraukinn af þeirri aðgerð er innan við eitt þúsund milljónir króna á ári.

32. þing Sjómannasambands Íslands vísar á bug kröfu útgerðarmanna um að sjómenn taki þátt með útgerðinni í greiðslu veiðigjalda og annars rekstrarkostnaðar útgerðarinnar, sem myndi leiða af sér verulega lækkun launa sjómanna. Veiðigjöldin eru skattur á útgerðina sem stjórnvöld kjósa að leggja á hagnað hennar og er sá skattur stjórnvalda sjómönnum óviðkomandi.

32. þing Sjómannasambands Íslands skorar á aðildarfélög SSÍ að hefja nú þegar undirbúning aðgerða til að knýja á um alvöru samningaviðræður við útvegsmenn. Þingið fer fram á að samninganefnd SSÍ taki málið til umfjöllunar svo fljótt sem auðið er og móti stefnu um sameiginlegar aðgerðir til framtíðar.

32. þing Sjómannasambands Íslands beinir því til Alþingis að sjá til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Einnig krefst þingið þess að fyrirtækjum í sjávarútvegi verði gert skylt að skila öllum upplýsingum um framleiddar afurðir og söluverð þeirra til Hagstofu Íslands. Með því móti er hægt að treysta því að mælingar á breytingum á afurðaverði séu réttar á hverjum tíma.

32. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir því harðlega að sjómenn fái aðeins uppgert úr 20% af andvirði VS afla eins og segir í lögum um stjórn fiskveiða. Það er svívirða að Alþingi skyldi sjómenn til að inna af hendi vinnu við frágang á aflanum en heimili síðan útgerðinni að skerða laun sjómanna um 80% af því sem segir kjarasamningi að greiða eigi fyrir þá vinnu. VS afla var ætlað að koma í veg fyrir brottkast á fiski. Þingið telur að reglur um VS afla hvetji frekar til brottkasts en letji. Þingið krefst þess að sjómenn fái fullan hlut skv. kjarasamningi fyrir þá vinnu sem þeir leggja á sig við að ganga frá öllum afla.

32. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að útgerðir og skipstjórnarmenn virði lögbundinn rétt sjómanna til hvíldar og fari eftir þeim lögum og reglum sem gilda um lágmarks hvíldartíma sjómanna. Einnig krefst þingið þess að mönnun fiskiskipa sé ætíð í samræmi við þá vinnu sem fram fer um borð.

32. þing Sjómannasambands Íslands skorar á íslenska útgerðarmenn að bæta samskipti sín við sjómenn og samtök þeirra. Vantraust hefur farið vaxandi milli sjómanna og útgerðarmanna undanfarin misseri og ár. Í sumum tilfellum er um algeran trúnaðarbrest að ræða. Skapa þarf nýtt traust milli aðila þannig að sjómenn og útgerðarmenn þessa lands geti talað saman á mannlegum nótum með það að leiðarljósi að báðir komi með reisn frá þeim samskiptum.

32. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að vigtunarreglur verði endurskoðaðar. Afli verði full vigtaður á löggiltri hafnarvog þar sem ísprósenta er ákveðin og endurvigtunarleyfi verði afnumin.

32. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir til að gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Einnig hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að greiða gjald í starfsmenntasjóð eins og aðrir atvinnurekendur gera. Það er skömm frá að segja að útgerðin í landinu greiði ekki til endurmenntunar sjómanna sinna, heldur er það greitt úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

32. þing Sjómannasambands Íslands hvetur stjórnvöld til að auka verulega framlög til hafrannsókna. Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umhverfi hafsins á norðurslóðum á næstu árum og áratugum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag Íslendinga er að mati þingsins nauðsynlegt að efla haf- og fiskirannsóknir umhverfis landið til að hægt sé að meta áhrif umhverfisbreytinganna á fiskistofna við Ísland

32. þing Sjómannasambands Íslands hvetur til varkárni þegar rafrænt eftirlit er stundað um borð í skipum. Augljóslega er rafrænt eftirlit til bóta þegar öryggi skipverja og skips á í hlut. Skilja verður algerlega milli vinnu og friðhelgis einkalífs skipverja. Skipið er jú bæði vinnustaður og heimili sjómannsins. Þingið er sammála því að aukið rafrænt eftirlit verði haft með brottkasti og löndun úr íslenskum skipum til að koma í veg fyrir löndun fram hjá vigt. Þingið fer fram á að útgerðarmenn fari að persónuverndarlögum í þessum efnum.

32. þing Sjómannasambands Íslands hvetur til þess að samtök útgerðarmanna ásamt sjómönnum skoði fjarskiptamál sjómanna með það að markmiði að lækka kostnað þeirra vegna fjarskipta þannig að hann verði sambærilegur við fjarskiptakostnað annara
landsmanna.

32. þing Sjómannasambands Íslands varar mjög sterklega við því að sjómenn láti hafa sig í að taka að sér gerviverktöku til sjós. Enda er það kolólöglegt og vinna til sjós er ekki verktakavinna.

 

Ályktun 32. þings Sjómannasambands Íslands um öryggis- og tryggingamál sjómanna
Öryggismálin eru sjómönnum og fjölskyldum þeirra afar hugleikin og hafa alltaf verið. Opinber stefna t.d. Siglingaráðs og þá stjórnvalda er að stefnt skuli að því að mannskaði við veiðar á Íslandsmiðum verði engir á hverju ári. Mikið hefur áunnist í þessum efnum en ekki má sofna á verðinum og þurfa þessi mál sífellt að vera í umræðunni.

Slysavarnaskóli sjómanna
Slysavarnaskóli sjómanna var settur á laggirnar 1985. Síðan þá hefur slysum og banaslysum til sjós fækkað að miklum mun. Hlúa verður vel að skólanum og búnaði hans. Hvetja til ákveðinnar öryggismenningar og að öll slys og næstum því slys séu skráð á réttan hátt. Þannig færum við komandi kynslóðum sjómanna ómetanlegar upplýsingar um hvernig má forðast slysin.
32. þing SSÍ þakkar slysavarnaskólanum fyrir árvekni og gott starf í þágu sjómannnastéttarinnar. Einnig fagnar þingið tilkomu öryggishandbóka í Íslensk fiskiskip.

Flugsveit og varðskip LHG
Það vita allir sem vilja vita hve þyrlusveit LHG skiptir sjómenn miklu máli. Það er lágmarks krafa sjómanna að alltaf séu til staðar tvær flughæfar þyrlur og tvær áhafnir á vakt ásamt læknum. Einnig krefjast sjómenn þess að flugvél LHG sé til staðar allt árið. Hún gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki við leit og björgun á úthafsmiðum okkar.
32. þing SSÍ samgleðst með Íslendingum vegna komu nýs og öflugs varðskips, Freyju, til Íslands og að staðsetning þess og heimahöfn verði á Siglufirði.

Björgunaræfingar
Æfingar um borð eru skylda og á að vera hluti af öryggismenningu á öllum fiskiskipum. Með æfingum slípast menn saman og vinna fumlausar á hættustund. Æfingin skapar meistarann. Nýliðafræðsla á einnig að vera fagleg og hluti af öryggismenningunni.
32. þing SSÍ hvetur sjómenn til árvekni og að stunda skipulegar æfingar um borð.

Hvíldartíminn
Illa hvíldur og vansvefta sjómaður er hættulegur bæði sjálfum sér og öðrum.
Á síðustu árum hefur borið á að fækkað sé í áhöfnum skipa. Sumpart á þetta sér stað vegna tæknibreytinga, en einnig hefur borið á að við fækkun í áhöfn aukist verulega álag á þá skipverja sem eftir eru um borð. Samtök sjómanna hafa lengi kallað eftir því að settar verði í lög reglur um lágmarks mönnun fyrir fiskiskip við veiðar. Reglurnar taki mið af stærð og gerð skipa og miðist við þær veiðar sem skipin stunda.
Í dag eru aðeins í lögum reglur um lágmarks mönnun réttindamanna þegar skip er á siglingu. Sárlega vantar reglur um heildar mönnun skipa við veiðar. Ef skip er vanmannað kemur það niður á hvíldartíma áhafnarinnar. Hvíldartíminn flokkast sannanlega undir öryggismál sjómanna.
32. þing SSÍ krefst þess að stjórnvöld setji fiskiskipum mönnunarreglur í samræmi við öryggi og vinnuna um borð. Einnig krefst þingið þess að útgerðarmenn hætti þeirri áráttu að fækka um borð, með það eina að markmiði að lækka launakostnað en eru um leið að rýra öryggi þeirra sem eftir verða.

Lögskráning sjómanna
Nýtt kerfi við lögskráningu sjómanna hefur verið í smíðum og nú hillir undir að nýtt kerfi verði tekið í notkun. Kerfið sem nú er í notkun er gamalt og úr sér gengið.
32. Þing SSÍ minnir á öryggishlutverk kerfisins. Það heldur utan um allar lögskráningar sjómanna á Íslandi og réttindi þeirra. Vegna kerfisins vitum við hverjir eru á hvaða skipi og hvaða stöðu þeir gegna.

Ný björgunarskip
Það er löngu tímabært að endurnýja björgunarskipastól Landsbjargar. Sú vinna er nú hafin og er það vel. Gömlu skipin hafa reynst okkur mjög vel en eru nú úr sér gengin.
32. þing SSÍ fagnar komu nýrra björgunarskipa til Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Mönnunarmál
Neyðaráætlun um borð í fiskiskipum þarf að vera í samræmi við fjölda í áhöfn á hverju skipi fyrir sig. Fækkun háseta um borð í fiskiskipum hefur það í för með sér að stýrimenn, vélstjórar og matsveinar ganga í störf hásetanna. Þetta er ekki til að auka öryggi um borð í fiskiskipum landsins.
32. þing SSÍ telur öryggi sjómanna stefnt í hættu með því að fækka í áhöfn fiskiskipa.

Endurmenntun sjómanna
Það á að vera hægt að taka endurmenntun sjómanna um borð í því skipi sem menn eru á. Námskeiðið yrði lærdómsríkara ef það væri þannig.
Með þessu væru sjómennirnir að læra rétt viðbrögð við ýmsar aðstæður á sínum vinnustað sem gerir endurmenntunina til muna skilvirkari.
32. þing SSÍ telur að endurmenntun sjómanna eigi að fara fram á þeirra vinnustað.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is