Skip to main content
Aldan

Alþýðusamband Íslands skorar á stjórnvöld að afgreiða breytingar á húsaleigulögum fyrir þinglok

By júní 19, 2024No Comments
Asi Merki 2024
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld ítrekað lofað við gerð kjarasamninga að ráðast í nauðsynlegar breytingar á húsaleigulögum með það að markmiði að styrkja réttarstöðu leigjenda. Þrátt fyrir það neyðarástand sem ríkir á húsnæðismarkaði hafa stjórnvöld  ekki staðið við loforðin.

Sá vandi sem ríkir á húsnæðismarkaði er öllum ljós. Á það ekki síst við um stöðuna á leigumarkaði. Stjórnvöld hafa brugðist í að tryggja viðunandi aðstæður á húsnæðismarkaði. Ljóst er að ráðast þarf í margþættar aðgerðir til að tryggja heilbrigðan húsnæðismarkað. Ein af þessu aðgerðum er að bæta húsnæðisöryggi og réttarstöðu leigjenda.

Við gerð kjarasamninga í desember 2022 fengu aðilar vinnumarkaðarins aðkomu að starfshópi innviðaráðherra sem hafði starfað frá því um sumarið og  vann að endurskoðun húsaleigulaga með það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Sú vinna tók mið af umfangsmikilli vinnu fjölmargra aðila undir forræði innviðaráðuneytisins sem teygir sig allt aftur til ársbyrjunar 2019.

Starfshópurinn skilaði einróma niðurstöðu í skilabréfi sínu til innviðaráðherra dags. 14.7.2023. Niðurstaða hópsins var málamiðlun andstæðra sjónarmiða en í nefndinni sátu  bæði fulltrúar launafólks og atvinnurekenda. Að mati Alþýðusambandsins hefði þurft að ganga lengra en féllst þó á að um mikilvægan áfangasigur væri að ræða. Með breytingunum myndi réttarstaða leigjenda færast nær því sem þekkist í nágrannalöndum.

Í aðdraganda kjarasamninganna sem undirritaðir voru í mars lagði verkalýðshreyfingin áherslu á að þessi hluti málsins yrði kláraður enda komið að lokapunkti nokkurra ára umfangsmikillar vinnu. Aðgerðir á húsnæðismarkaði þola ekki frekari bið og breyting á húsalögum er einn af nokkrum lykilþáttum í að tryggja heilbrigðari húsnæðismarkað. Ekkert fer á milli mála að loforð og yfirlýsingar um að bæta húsnæðisöryggi og réttarstöðu leigjenda eru tilvísun í umrætt frumvarp, sem þá var reiðubúið og afrakstur langrar og vandaðrar vinnu aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

Alþýðusamband Íslands skorar á stjórnvöld að efna gefin loforð og afgreiða breytingar á húsaleigulögum fyrir þinglok.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is