Skip to main content
Aldan

Allt að 86% munur á kostnaði heimila vegna dreifingar rafmagns

By febrúar 15, 2023No Comments
Verdbolga Upp
Samkvæmt könnun verðlagseftirlits ASÍ á þróun á kostnaði heimila vegna dreifingar á rafmagni á árunum 2018 til 2023 hækkuðu gjaldskrár dreifiveita á bilinu 10%-33%. Mest hækkaði kostnaðurinn hjá HS veitum á tímabilinu, 32,6% en minnst hjá RARIK í dreifbýli, 10%.  Kostnaður heimila vegna flutnings og dreifingu raforku er lægstur hjá Veitum, 50.282 kr. en  86% hærri hjá Orkubúi Vestfjarða í dreifbýli þar sem hann er hæstur, 93.489 kr.  Kostnaður miðast við heimili sem nýtir 4.000 kW hjá dreifingarveitum raforku. 

Raforkureikningi heimilisins má skipta í tvo hluta. Annars vegar er greitt fyrir flutning og dreifingu raforkunnar til þeirrar dreifiveitu sem hefur sérleyfi á viðkomandi landsvæði og hins vegar er greitt fyrir sjálfa raforkuna til þess sölufyrirtækis sem hver og einn kaupandi velur. Einn aðili hefur sérleyfi til dreifingar raforku á hverju landsvæði og því engin leið fyrir viðskiptavini að komast undan verðhækkunum. Þessi könnun nær einungis til dreifingar á raforku en ekki raforkusölu.  

Gjaldskrá HS veitna hækkað mest á 5 ára tímabili  

Heildarhækkun kostnaðar vegna dreifingar á raforku á tímabilinu 2018-2023 var minnst, 10%, hjá RARIK í dreifbýli og mest, 33% hjá HS Veitum. Næst mest hækkaði kostnaður við dreifingu hjá RARIK Í þéttbýli, 29% og Norðurorku, 28%. Næst minnst hækkaði kostnaður hjá Orkubúi Vestfjarða í dreifbýli, um 14%. Rétt er að taka fram að dreifbýlisniðurgreiðslur hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða valda sveiflum í verðþróun þeirra gjaldskráa. 

 

Mestar hækkanir á gjaldskrám 2022 og 2023 

 

Mest hækkuðu gjaldskrár árin 2022 og 2023 en almennt voru minni hækkanir á gjaldskrám veitnanna árin 2019, 2020 og 2021. Árið 2019 hækkuðu gjaldskrár dreifiveitna á billinu 0,2-7%. Mest hækkaði gjaldskrá Norðurorku en gjaldskrá Orkubús Vestfjarða í dreifbýli lækkaði um 0,3%. Árið 2020 hækkuðu gjaldskrár veitnanna á bilinu 0,6-2,5%. Árið 2021 hækkuðu gjaldskrár veitnanna á bilinu 3,2-10%, mest hjá HS veitum. Gjaldskrá Orkubús Vestfjarða fyrir dreifbýli lækkaði hins vegar um 17% og gjaldskrá RARIK í dreifbýli lækkaði um 2,7%.  

Árið 2022 hækkuðu gjaldskrár veitnanna á bilinu 4,5-17% að undanskilinni gjaldskrá RARIK í dreifbýli sem lækkaði um 5%. Á þessu ári, árið 2023, hækkuðu gjaldskrár veitnanna um 2%-17% frá síðasta ári. 

Kostnaður við dreifingu áberandi hæstur í dreifbýli 

Mikill verðmunur er á dreifingu raforku milli veitna. Kostnaðurinn er samsettur af föstu gjaldi annars vegar og gjaldi fyrir hverja kílóvattstund (kWh) sem notuð er hins vegar.  

Árið 2023 greiðir heimili sem nýtir 4000 kW stundir á ári, sem er nálægt meðalraforkunotkun heimila á Íslandi, mest hjá Orkubúi Vestfjarða í dreifbýli, 93.489 kr. en minnst hjá Veitum, 50.282 kr. Þannig er munur á hæsta og lægsta kostnaði 86% eða 43.206 kr. fyrir þessa notkun á ári. Kostnaðurinn er næsthæstur hjá RARIK í dreifbýli,  87.900 kr. og næst minnstur hjá Norðurorku, 55.401 kr.  

Kostnaður við dreifinguna er talsvert hærri í dreifbýli en í þéttbýli en er þó að hluta jafnaður með jöfnunargjaldi sem notað er til að niðurgreiða gjaldskrár í hluta dreifðra byggða skv. sérstakri lagaheimild sem Orkustofnun sér um framkvæmd á. RARIK og Orkubú Vestfjarða eru þau veitufyrirtæki sem hafa heimild til að niðurgreiða gjaldskrár sínar fyrir dreifbýli. 

Á tilteknum landsvæðum þar sem aðgengi að hitaveitu er takmarkað er raforka einnig notuð til húshitunar með tilheyrandi viðbótarkostnaði. Byggðastofnun er með á heimasíðu sinni mælaborð sem sýnir samanburð á heildarkostnaði við kaup viðmiðunarheimilis á raforku og húshitun á mismunandi stöðum á landinu. 

Um raforkudreifingu og raforkusölu  

Skipulag raforkuviðskipta á Íslandi, sem innleitt var að fullu árið 2005, felur í sér að vinnsla og sala raforkunnar sjálfrar er frjáls en eingöngu sérstakir leyfishafar reka flutningskerfi raforkunnar á hverju landsvæði. Þar með er raforkukostnaður heimila aðgreindur í kaup á raforku annars vegar og gjald fyrir notkun á veitukerfum hennar hins vegar. Samkeppni ríkir þannig á markaði á sölu raforku en ekki um rekstur á flutnings- og dreifikerfunum.  

Fyrirtæki sem stofnuð hafa verið utan um dreifingu rafmagns til heimila á Íslandi eru fimm talsins. Af þeim þjónusta Veitur langstærstan hluta landsmanna í gegnum dreifikerfi á stórhöfuðborgarsvæðinu auk Akraness. Önnur veitufyrirtæki eru Norðurorka, HS veitur, Orkubú Vestfjarða og RARIK. Öll eru þau í eigu sveitarfélaga eða ríkis utan HS veitna sem er að tæpum helmingshluta í eigu lífeyrissjóða og annarra fjárfesta. 

Orkustofnun á skv. lögum að veita gjaldtöku þeirra fyrirtækja sem hafa sérleyfi til flutnings á rafmagni aðhald. Þetta aðhald fer fram í gegnum svokölluð tekjumörk eða leyfða arðsemi fyrirtækjanna sem Orkustofnun setur.  

Upplýsingar um raforkuverð aðgengilegar á vefnum 

Varðandi kaup á sjálfri raforkunni geta heimili beint viðskiptum sínum til þess orkusala sem býður ódýrasta verðið hverju sinni. Fleiri en einn aðili vaktar verð á orku til heimila sem og ferlið við að skipta um söluaðila er handhægt fyrir kaupendur. Hægt er að nálgast samanburð á verði á raforku bæði hjá Aurbjörgu og hjá Orkusetri Orkustofnunar. Í reiknivél Orkuseturs er einnig hægt að sjá samsettan heildarkostnað við kaup á raforku og aðgang að dreifikerfi. 

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is