Skip to main content
Aldan

Kjarasamningsbrot og svört atvinnustarfsemi skaða ferðaþjónustuna

By nóvember 5, 2012No Comments

Eftirfarandi grein birtist á vef Starfsgreinasambands Íslands 2. nóvember sl.

Kjarasamningsbrot og svört atvinnustarfsemi skaða ferðaþjónustuna
 

Á sama tíma og fréttir berast af metfjölda erlendra ferðamanna til Íslands árið 2012 er ástæða til að hafa áhyggjur af fjölgun kjarasamningsbrota og undanskota í ferðaþjónustu. Þessi hegðun sem sést meðal ferðaþjónustu- fyrirtækja setur svartan blett á atvinnugreinina og kemur í veg fyrir að hæft fólk vilji starfa í greininni. Þar að auki  torvelda slík vinnubrögð þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem vilja standa rétt og vel að málum og  reka sína starfsemi samkvæmt gildandi reglum á vinnumarkaði. Það er til mikils að vinna að þessi vaxtabroddur í íslensku atvinnulífi sé byggður á heiðarleika og ferðamannaiðnaðurinn leggi sitt af mörkum til samneyslunnar.
 
 

Á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands í sumar voru málefni ferðþjónustunnar til umfjöllunar. Á fundinum lýstu formenn aðildarfélaganna verulegum áhyggjum af hversu algengt það er að starfsfólk í greininni sé svikið um rétt launakjör og önnur kjarasamningsbundin réttindi. Fjölmörg verkalýðsfélög hafa ályktað í þessa veru auk þess sem vandinn var til umfjöllunar á nýliðnu þingi ASÍ.
 
 
 
Við lok háannatímans í ferðaþjónustu hefur aðildarfélögum SGS borist fjöldi ábendinga um brot á kjarasamningum starfsfólks í ferðaþjónustu ásamt alvarlegum félagslegum brotum. Því miður virðast sumir atvinnurekendur í ferðaþjónustu telja sig geta brotið kjarasamninga gagnvart starfsfólki auk þess að fara ekki að lögum varðandi skattaskil og samkeppnishætti. Aðildarfélög SGS eru með fjölmörg innheimtumál í gangi gagnvart ferðaþjónustufyrirtækjum. En allt of algengt er að starfsfólki í ferðaþjónustu séu greidd laun undir umsömdum lágmarkskjörum. Þá eru ákvæði um lágmarkshvíldartíma brotin, yfirvinnu- og vaktaálög ekki greidd eða iðgjöldum til stéttarfélaga og lífeyrissjóða ekki skilað. Þar fyrir utan virðist það algengt að starfsfólki sé boðin svört vinna með tilheyrandi skerðingu réttinda. Að sama skapi eru engin gjöld eða skattar greiddir af svartri vinnu.

 
Svört atvinnustarfsemi og kjarasamningsbrot skekkja samkepnisstöðu innan atvinnugreinarinnar. Þau fyrirtæki sem starfa heiðarlega og fara eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði bera þannig meiri kostnað en fyrirtæki sem stunda félagsleg brot á vinnumarkaði. Þetta ástand í ferðaþjónustunni er algjörlega óþolandi og skaðar jafnframt ímynd atvinnugreinarinnar. Það er krafa SGS að tekið verði á þeim fyrirtækjum  í ferðaþjónustu sem verða uppvís af slíkum brotum. Þeim verði gert skilt að fara eftir þeim kjarasamningum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði ásamt því að löggjafinn leggi við því hörð viðurlög verði fyrirtæki uppvís af því að skila ekki sköttum eða öðrum lögbundnum gjöldum.

 
SGS sér það sem sameiginlegt hlutverk stjórnvalda, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins að tryggja að öll ferðaþjónustufyrirtæki fari að settum leikreglum og þeir sem ekki geri það verði dregnir til ábyrgðar. Markmiðið er að sá vöxtur sem á sér stað innan atvinnugreinarinnar skili sér allur með löglegum hætti og starfsfólk innan greinarinnar njóti þeirra réttinda sem samið er um á vinnumarkaði
 
 
 
Á þingi norrænu samtaka starfsfólks í hótel-, veitingahúsa- og ferðaþjónustu sem haldið var í Þrándheimi í september síðastliðnum var samþykkt ályktun um þær áhyggjur sem starfsfólk í greininni hefur af þeirri þróun sem virðist eiga sér stað í ferðaþjónustu á Norðurlöndum. Vöxtur greinarinnar má ekki vera á kostnað gæða, umhverfis né starfsfólksins. SGS vill vinna að því í góðu samstarfi við aðila í ferðaþjónustu að fjölga störfum í greininni, en setur það skilyrði að farið sé að gildandi lögum og að gildandi kjarasamningsbundin réttindi launafólks séu virt. Fjölgun ferðamanna ber að skila þjóðarbúinu fleiri eftirsóknarverðum störfum og auknum gjaldeyristekjum – ekki kjarasamningsbrotum og aukinni svartri atvinnustarfsemi.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is