Miklar verðhækkanir á dýraafurðum milli ára
Verð á dýraafurðum hefur hækkað umtalsvert milli ára á meðan verð á mörgum jurtaafurðum hækkar lítið eða jafnvel lækkar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt verðlagseftirlits ASÍ þar sem verðlag í nóvember var borið saman við verðlag nóvember í fyrra. Verð á eggjum hækkar um 12%, á lamba- og nautakjöti um 10%, á meðan verð á tófú lækkar um 1% og verð á kjúklingabaunum um 2%. Grænmeti hækkar hóflega í verði og lækkar í sumum tilfellum.
Verðlag á matvöru hækkaði lítið milli október og nóvember, eða um 0,19%. Það er önnur lægsta mæling þessa árs. Á ársgrundvelli hefur matvöruvísitala ASÍ hækkað um 4,7%. Verð á dýraafurðum og innlendum vörum hefur vegið þungt í hækkunum ársins en til viðbótar við fyrrnefndar verðhækkanir á kjöti og eggjum, hefur verð á mjólkurvörum hækkað um 6,1-6,6% milli ára. Áður hefur verðlagseftirlitið einnig vakið athygli á hækkunum á sælgæti og kaffi.
Jólavörur komnar í verslanir – á hærra verði
Jólavörur eru farnar að láta sjá sig í verslunum landsins en nokkuð ber á því að þær séu á hærra verði en í fyrra. Verð á jólavörum getur sveiflast fram að hátíðum og getur verið gott fyrir neytendur að vera á verði gagnvart verðlagi í desember. Verðlagseftirlit ASÍ mun fylgjast náið með verði á jólavörum og matvöru á næstu viku.

Malað jólakaffi frá Te & kaffi kom í sölu nú í nóvember og var fáanleg í Bónus fyrir 1429kr og á 1430kr í Krónunni, á um 15% hærra verð en fyrir ári. Nú um mánaðamótin hefur verðið á jólakaffi tekið að falla og er nú fáanlegt á 1295kr í Krónunni, 10% lægra en fyrir aðeins fáeinum dögum.
Líkt og kaffiverð hefur verð á Malt & appelsíni sveiflast nokkuð. Dósin af malti og appelsíni kom í verslanir Krónunnar á 285kr, en hefur síðan lækkað í 278kr. Dósin kostar nú rúmlega 3% meira í Bónus og Krónunni en á sama tíma í fyrra.
Jólakötturinn frá Freyju sást í Bónus í nóvemberlok á 229 kr. Fyrir ári síðan kostaði hann 169kr og hefur því hækkað um 36%.
Myllu jólaterturnar kostuðu í fyrra 878kr í Prís, sem var 5-9% ódýrara en í Krónunni og Bónus. Enn eru þær ódýrari í Prís, en kökurnar hafa hækkað um 8% þar milli ára. Þær kosta nú 949kr í Prís, 998kr í Bónus og 999kr í Krónunni, allar þrjár.
Aðrar gagnlegar vörur í jólabúskapinum sem vert er að nefna:
- MS matreiðslurjómi ½ lítri í Bónus og Krónunni hækkar um 8%. Schlagfix vegan sprauturjómi, Oatly hafrarjómi og Alpro sojarjómi eru á sama verði í Krónunni og í fyrra. Cessibon sprauturjómi í Bónus lækkar um 1%.
- Til Hamingju valhnetukjarnar, seldir í 90gr poka í Krónunni, kosta nú 199kr og hafa lækkað um 13% frá síðasta ári, þegar þeir kostuðu 229kr. Euroshopper valhnetukjarnar kosta 217kr í 100gr poka í Bónus (hækkun um 4%) en 498kr í 300gr poka (hækkun um 8%). Í krónum á grammið er Bónus því ódýrara, en munurinn hefur minnkað mikið, sérstaklega þegar kemur að stærsta pokanum.
- Kristjáns ósteikt laufabrauð fékkst á sama verði í Prís í nóvemberlok eins og um jólin í fyrra, eða á 1898kr. Í Bónus kostaði það 2059kr og í Krónunni 2060kr, sem samsvarar rúmlega 7% árshækkun.
- Nóa konfektkassi, eitt kílógramm að þyngd, selst nú 9% dýrari en í fyrra í Krónunni. Er um nokkuð minni hækkun að ræða en á öðru sælgæti þar sem meðalverð á vörum Nóa Síríus hefur hækkað um 19% milli ára í Bónus, Krónunni og Prís.
Aðferðafræði
Í árshækkun vöruflokka og vörumerkja er meðalverðbreyting tiltekins flokks í öllum matvöruverslunum skoðuð og vegin eftir áætlaðri markaðshlutdeild þeirra.
Vísað er til flokksins „Grænmeti ræktað vegna ávaxtar“ sem „Tómatar, gúrkur, paprikur osfrv“ á grafinu um vegan vörur.
