Alþýðusamband Íslands hefur skilað umsögn um drög að frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga, sem meðal annars fjalla um útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa.
Sambandið gerir alvarlegar athugasemdir við fyrirætlanir um að stjórnvöldum verði ekki lengur skylt að leita umsagnar viðkomandi stéttarfélags við útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa.
Í núgildandi kerfi fær verkalýðshreyfingin upplýsingar um þau atvinnuleyfi sem gefin eru út og geta þannig haft virkt eftirlit með kjörum þeirra sem hingað koma til starfa frá löndum utan EES, ekki síst með heimsóknum á vinnustaði.
Reynsla verkalýðshreyfingarinnar er að 3. ríkis borgarar á vinnumarkaði og sérstaklega þeir sem eru berskjaldaðir gagnvart misneytingu vegna bágrar efnahagslegrar stöðu eru ólíklegri en annað launafólk til að leita til stéttarfélaganna að fyrra bragði og því mikilvægt að verkalýðshreyfingin geti átt frumkvæði að eftirliti með þeirra kjörum.
Í frumvarpsdrögunum er hins vegar gert ráð fyrir að stéttarfélög fái einungis aðgang að tölulegum upplýsingum um fjölda útgefinna leyfa og ríkisfang umsækjenda en ekki persónugreinanleg gögn nema í undantekningartilvikum. Að mati ASÍ myndi það draga verulega úr getu verkalýðshreyfingarinnar til að sinna árangursríku eftirliti á vinnumarkaði.
ASÍ krefst þess að ef umsagnarréttur stéttarfélaganna verður felldur á brott verði tryggt að verkalýðshreyfingin fái áfram upplýsingar um nöfn, kennitölur, atvinnurekendur og starfsstöðvar þeirra sem koma hingað til starfa frá ríkjum utan EES.
Umsögnina í heild má lesa HÉR.
