Samkvæmt nýrri hagspá ASÍ má búast við því að verðbólga verði þrálát og yfir 5% út næsta ár. Nýbirt spá Seðlabankans er á svipaða vegu. Þrátt fyrir ítrekaðar stýrivaxtahækkanir hefur Seðlabankanum hvorki tekist að slá á þenslu í hagkerfinu né að öðlast þá trú hagkerfisins að hann sé fær um að ná henni niður. Hvers vegna er það?
Víxlverkun hagnaðar og verðlags
Sú verðbólga sem dunið hefur á hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs á sér margar orsakir. Öðru fremur hefur það verið hækkun húsnæðiskostnaðar og þróun alþjóðlegs hrávöruverðs sem ýtt hefur undir hækkun á verðlagi hér á landi. Það sést berlega í dag, að hröð vaxtalækkun inn í umhverfi framboðsskorts blés í fasteignabólu á Íslandi eftir heimsfaraldur.
Gjarnan er athyglinni eingöngu beint að einni orsök verðlagsþróunar, þ.e. þætti launa í þróun verðlags. Því kemur það mörgum á óvart að heyra að rekstrarafkoma fyrirtækja hefur aldrei verið betri en einmitt síðustu tvö ár. Á mannamáli þýðir það að hlutfall launa af verðmætasköpun hefur lækkað og hlutur fjármagnseigenda hefur aukist. Þessi þróun er ekki einungis bundin við Ísland. Mikil umræða á sér stað erlendis um þátt fyrirtækja í vaxandi verðbólgu, þ.e. að fyrirtæki auki álagningu samhliða hækkunum aðfangaverðs og skili þeim síður þegar verðhækkanir ganga til baka. Evrópski seðlabankinn hefur m.a. bent á þessa þróun, þ.e. að hætta sé á víxlverkun hagnaðar og verðlags. Þessi hætta er meiri í umhverfi fákeppni sem þrífst á flestum lykilmörkuðum hér á landi. Alþjóða greiðslubankinn bendir á að verðbólga geti hjaðnað að markmiði samhliða launahækkunum að því gefnu að fyrirtæki hemji álagningu.
Afkoma fyrirtækja í sögulegu hámarki
Rekstrarafgangur fyrirtækja var sögulega hár á síðasta ári. Í heild- og smásöluverslun jókst hann um 20% eða langt umfram verðbólgu. Í einkageiranum í heild sinni jókst rekstrarafgangur um 36%, m.a. vegna sterkrar stöðu útflutningsgreina. Hið sama gildir hér sem í Evrópu, verðbólga getur hjaðnað að því gefnu að fyrirtæki hemji álagningu.
Stöðugleika verður hins vegar ekki náð án þess grunnurinn að honum sé lagður af stjórnvöldum. Í peningamálum er skýrt dregið fram að og verðbólga og vaxtastig væri lægra ef stjórnvöld hefðu sýnt meira aðhald í ríkisfjármálum. Þenslan væri jafnframt minni ef stjórnvöld hefðu gert tilraun til að hemja hömlulausan vöxt ferðaþjónustunnar. Fráviksdæmi bankans metur að vextir þurfi að vera 1 prósentu hærri ef fjölgun ferðamanna fer umfram grunnspá bankans. Þessi hraða fjölgun ferðamanna hefur ýtt undir verulega þenslu í hagkerfinu og á húsnæðismarkaði.
Stjórnvöld bera ein ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin á húsnæðismarkaði og hafa um árabil sofið á verðinum. Niðurstaðan er að réttindi leigjenda eru óviðunandi, of lítið hefur verið byggt og hætta á því að draga muni úr byggingum. Staðan er slík að stjórnvöld þurfa nú undanþágur frá eigin lágmarkskröfum um húsnæði til að tryggja viðkvæmustu hópum samfélagsins húsaskjól. Í sögulegu samhengi er leitun að jafn afdráttarlausri yfirlýsingu um uppgjöf.
Kann stjórnmálastéttin sér loksins hóf?
Laun æðstu ráðamanna koma til endurskoðunar í júlí. Hámarkslaunahækkanir í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði voru 66 þúsund krónur á mánuði Stjórnmálamenn geta því gengið fram með góðu fordæmi og fylgt því viðmiði sem samið var um á almennum vinnumarkaði. Að öðrum kosti verða sérkjör þeim til handa til þess að auka enn frekar á vaxandi spennu í þjóðfélaginu sökum þess rofs sem margir skynja í sambandi valdafólks og almennings.
Stjórnvöld geta þó umfram allt ráðist í aðgerðir á húsnæðismarkaði og gert ráðstafanir til að milda áhrif verðbólgu og vaxtahækkana á heimilin. Þar með kann að vera unnt að leggja grunn að stöðugleika í aðdraganda kjarasamninga.