Stjórnvöld hafa farið þá leið að afla tekna með krónutölugjöldum og auknum álögum á bifreiðaeigendur. Þessar aðgerðir hafa magnað upp verðbólgu og dregið úr kaupmætti heimila. Í fjármálaáætlun er boðað áframhald á þessari stefnu þar sem stærsta aðgerð tekjuöflunar er aukin skattlagning á ökutæki heimila. Ekki er að finna neinar útfærðar tillögur um skattahækkanir á metafkomu útflutningsgreina. Alþýðusambandið mótmælir slíkri forgangsröðun sem eykur byrðar heimila á meðan breiðustu bökum samfélagsins er hlíft. Ríkisstjórnin velur að standa vörð um sérhagsmuni frekar en almannahagsmuni.
Miðstjórn Alþýðusambandsins kallar eftir raunverulegum aðgerðum. Aðgerðum sem draga úr verðbólgu, mæta versnandi afkomu heimilanna og bráðum húsnæðisvanda. Óbreytt forgangsröðun og sinnuleysi gagnvart afkomuvanda fólksins í landinu er ekki lengur valkostur.