Skip to main content
Aldan

Föst störf hornsteinn norrænnar velferðar

By apríl 1, 2022No Comments

Norræna verkalýðshreyfingin leggur þunga áherslu á að fastráðningar í full störf verði hin almenna regla í heilbrigðis- og umönnunargeiranum á Norðurlöndum. Konur, innflytjendur og fólk með litla eða enga formlega menntun eru þeir hópar sem helst verða fyrir barðinu á skammtímaráðningum og óöruggri vinnu í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu. Þetta er ein meginniðurstaða nýrrar skýrslu sem SAMAK, samstarfsnefnd alþýðusambanda og jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum, hefur sent frá sér.Skýrslan nefnist „Fullt starf á Norðurlöndum – Aukin gæði og trygg vinna í föstum, fullum störfum í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu“. Fram kemur að vinnuaðstæður og -kjör í heilbrigðis- og umönnunarstörfum eru um margt ólíkar á Norðurlöndum. Það sama á við um þær áskoranir sem Norðurlöndin standa frammi fyrir. Mikilvægt sé því að leita lausna sem henta í hverju landi.

Hlutastörf algengust á Íslandi

Í skýrslunni kemur fram að hlutfall fólks í hlutastörfum í umönnunar- og heilbrigðisgeiranum er hæst á Íslandi. Þvert á það sem á við um Danmörku, Noreg og Svíþjóð fer þetta hlutfall vaxandi hér á landi. Þá kemur og fram að í öllum löndunum eru konur í meirihluta þeirra sem eru í hlutastörfum og er hlutfallið einnig hæst á Íslandi.

Í yfirlýsingu sem leiðtogar alþýðusambanda og jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum hafa birt í tilefni skýrslunnar segir:

„Norrænu jafnaðarflokkarnir og verkalýðshreyfing Norðurlanda líta svo á að full, föst störf séu mikilvægur hornsteinn í norrænu velferðarlíkaninu. Þessari skýrslu fylgja pólitísk meðmæli sem við leggjum til að verði fylgt eftir í hverju landi fyrir sig:

Tilboð um fullt starf á að fara framar á forgangslistann hjá verkalýðshreyfingunni og flokkunum sem sjálfsagt mál fyrir starfsfólk í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu.
Opinber fjármögnun heilbrigðis- og umönnunarþjónustu þarf að vera fullnægjandi, og sums staðar þarf að styrkja stöðu fullra starfa á vinnumarkaðnum og í samfélaginu.
Takmarka þarf eignarhald einkaaðila í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu.
Áhrif starfsfólks og notenda þjónustunnar á starfsemina á að þróa áfram.”

 

Skýrslu SAMAK má nálgast hér:

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is