Skip to main content
Aldan

Bónus oftast með lægra verðið á matvöru en Iceland oftast með hæsta verðið

By september 13, 2021No Comments

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á matvöru og hreinlætis- og snyrtivöru þann 8. september síðastliðinn.
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 94 tilvikum en Krónan næst oftast, í 12 tilvikum. Iceland var oftast með hæsta verðið, í 44 tilvikum en Hagkaup næst oftast eða 39 sinnum, Fjarðarkaup 26 sinnum og Kjörbúðin í 24 tilvikum.

Mikill munur var á hæsta og lægsta verði á mörgum vörum í könnuninni. Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði á matvöru og öðrum heimilisvörum væri undir 20% eða í 48 tilfellum af 135. Í 32 tilvikum var 20-40% munur á hæsta og lægsta verði, í 31 tilviki 40-60% og í 24 tilvikum var yfir 60% verðmunur.

69% verðmunur á kílóverði af frosnum þorskbitum
Kjöt- og fiskvörur vega þungt í vörukörfu margra og geta verið nokkuð dýrar í innkaupum en í mörgum tilfellum var mikill munur á hæsta og lægsta kílóverði í þessum vöruflokki í könnuninni. Þannig var 69% eða 900 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði á frosnum þorskbitum, lægst var verðið í Krónunni, 1.299 kr. en hæst í Kjörbúðinni, 2.199 kr. Einnig var mikill verðmunur á lambakjöti eða 50% munur á hæsta og lægsta verði á heilu, frosnu og ókrydduðu lambalæri. Lægst var verðið í Bónus, 1.198 kr/kg, en hæst í Fjarðarkaupum, 1.798 kr/kg.

 

Hér má sjá nánar verðið á öllum vörunum í könnuninni


143% verðmunur á frosnum jarðarberjum

Mikill verðmunur var í flokki frystivara eða 38%-143%. Mest var 143% munur á hæsta og lægsta kílóverði af frosnum jarðarberjum. Lægst var verðið í Bónus 498 kr/kg en hæst var það í Heimkaup 1.209 kr/kg.
Einnig má nefna 93% mun á hæsta og lægsta verði á frosnum beyglum með kanil og rúsínum þar sem lægsta verðið var í Bónus 298 kr. en hæsta verðið í Hagkaup 559 kr.
Úr öðrum flokkum má nefna að mikill verðmunur var á ýmiskonar þurr- og niðursuðuvöru. 78% munur var á hæsta og lægsta verði af ISIO4 matarolíu. Lægst var verðið í Bónus, 529 kr. en hæst í Iceland, 939 kr.
Í flokki hreinlætisvara var 82% verðmunur á Ariel Original þvottadufti, lægsta verðið var í Bónus 499 kr/kg en hæst var verðið í Hagkaup 908 kr/kg.

Allt að 105% verðmunur á brauð- og kornvöru
Mestur verðmunur í þessum vöruflokki var á Jacob‘s tekexi eða 105%. Lægsta verðið var í Bónus 99 kr. en hæsta verðið í Heimkaup 203 kr. Þá var 86% munur á hæsta og lægsta kílóverði af Kellogg‘s Cornflakes, lægst var verðið í Bónus, 657 kr/kg en hæst var verðið í Kjörbúðinni, 1.221 kr/kg.
Töluverður verðmunur á sumum mjólkurvörum
25% eða 404 kr. munur var á hæsta og lægsta kílóverði af stóru stykki af Skólaosti, lægst var verðið í Bónus, 1.595 kr/kg en hæst í Hagkaup, 1.999 kr/kg. Einnig var 43% munur á hæsta og lægsta verði á Óskajógúrti m/hnetu og karamellubragði, lægst var verðið í Bónus 139 kr. en hæst í Iceland 199 kr.
Verðmunurinn á Krakka Lýsi var 44% eða 380 kr. þar sem lægsta verðið var í Bónus, 859 kr. og hæsta verðið í Iceland, 1.239 kr.

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 135 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mosfellsbæ, Bónus Smáratorgi, Krónunni Selfossi, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup Skeifunni, Kjörbúðinni Sandgerði og á Heimkaup.is. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is