Frá því í janúar 2014 hefur verð á raforku hækkað um 3,8%-6,65% hjá öllum raforkusölum á landinu, mest hjá Orkusölunni en minnst hjá Fallorku. Einnig hefur flutningur og dreifing á raforku hækkað um allt að 6% hjá öllum dreifiveitum nema Rarik dreifbýli og Orkubúi Vestfjarða dreifbýli þar sem verð hefur lækkað á milli ára.
Frá því í janúar 2014 hefur verð á raforku hækkað um 3,8%-6,65% hjá öllum raforkusölum á landinu, mest hjá Orkusölunni en minnst hjá Fallorku. Einnig hefur flutningur og dreifing á raforku hækkað um allt að 6% hjá öllum dreifiveitum nema Rarik dreifbýli og Orkubúi Vestfjarða dreifbýli þar sem verð hefur lækkað á milli ára.
Á þessu rúma eina og hálfa ári sem samanburðurinn nær til hefur skattur á raforkusölu, umhverfis- og auðlindaskatturinn verið lækkaður úr 0,13 kr. á kWst. í 0,129 kr. á kWst., virðisauki verið lækkaður úr 25,5% í 24% og nýtt jöfnunargjald sett á sem er 0,2 kr./kWst. sem leggst á alla greiðendur. Þetta eru gjöld sem fyrirtækin innheimta fyrir hönd ríkissjóðs.
Raforkureikningi heimilisins má skipta í tvo hluta. Annars vegar er greitt fyrir flutning og dreifingu raforkunnar til þeirrar dreifiveitu sem hefur sérleyfi á viðkomandi landsvæði og hins vegar er greitt fyrir raforkuna sjálfa til þess sölufyrirtækis sem hver og einn kaupandi velur. Þannig greiðir heimili á Ísafirði ávallt Orkubúi Vestfjarða fyrir flutning og dreifingu á raforku en getur síðan valið að kaupa raforkuna af t.d. Orkuveitu Reykjavíkur.
Í neðangreindum dæmum er gert ráð fyrir að heimilið kaupi 4.000 kWst./ári. af raforku af þeirri dreifiveitu sem hefur sérleyfi á flutningi og dreifingu á viðkomandi landsvæði og þeim sölufyrirtækjum sem stofnuð hafa verið utan um raforkusöluna hjá viðkomandi dreifiveitu.
Flutningur og dreifing á raforku
Kostnaður við flutning og dreifingu raforku hefur hækkað mest hjá Rafveitu Reyðarfjarðar eða um 6% og hjá Orkubúi Vestfjarða þéttbýli um 4,9% en um 1-1,5% hjá Norðurorku, HS veitu, Orkuveitu Reykjavíkur og RARIK dreifbýli. Á sama tíma er lækkun á hjá RARIK dreifbýli um 8,5% og Orkubúi Vestfjarða dreifbýli um 0,3%.
Kostnaður heimilis í þéttbýli, fyrir flutning og dreifingu á raforku er hæstur 48.271 kr. á ári hjá Orkubúi Vestfjarða þéttbýli en lægstur 37.171 kr. hjá Norðurorku sem gerir 11.100 kr. verðmun eða 30%.
Dreifbýlisheimili greiða talsvert hærra verð fyrir þessa sömu þjónustu. Hjá Orkubúi Vestfjarða dreifbýli er kostnaðurinn 69.323 kr. á ári og hjá Rarik dreifbýli er hann 68.123 kr. þegar tekið hefur verið tillit til dreifbýlisframlagsins. En vegna breytinga á dreifbýlisframlaginu hefur verðið lækkað hjá Orkubúi Vestfjarða dreifbýli um 0,3% og hjá Rarik dreifbýli um 8,5%. Um kaup á þessari þjónustu hafa heimilin ekkert val og verða að eiga viðskipti við þá dreifiveitu sem hefur einkaleyfi fyrir flutning og dreifingu á raforku á viðkomandi landssvæði.
Sala á raforku – orkusala
Orkusalan er sá hluti raforkuviðskiptanna sem neytendur hafa val um við hvaða fyrirtæki þeir skipta og ætti að vera samkeppni um kaupendur á orkunni. Gjaldið hefur hækkað mest hjá Orkusölunni um 6,7% en minnst um 3,8% hjá Fallorku. Aðrir orkusalar eru að hækka gjaldskrána um 4,8-6%.
Ódýrast er að kaupa orkuna hjá Orkubúi Vestfjarða þéttbýli/dreifbýli, þar sem kostnaðurinn er 26.432 kr. en dýrast er að kaupa hana frá HS orku þar sem kostnaður er 27.622 kr. á ári, munur á hæsta og lægsta verði er 1.190 kr. eða rúmlega 4,5%.
Heildar raforkukostnaður
Samsetti rafmagnsreikningurinn fyrir bæði flutning, dreifingu og orku hefur hækkað hjá öllum nema Orkusölunni/RARIK dreifbýli þar sem reikningurinn hefur lækkað um 4,6%. Mesta hækkunin er hjá Rafveitu Reyðarfjarðar um 6% og hjá Orkubúi Vestfjarða þéttbýli um 5,1%, en hjá öðrum hækkar reikningurinn minna eða um 1,2-3%.
Heildarkostnaður fyrir flutning, dreifingu og orku til almennra heimilisnota í þéttbýli, er hæstur hjá viðskiptavinum Rarik þéttbýli/Orkusalan eða 75.236 kr. en lægstur hjá Norðurorku/Fallorku 63.851 kr. og er verðmunurinn 11.385 kr. eða 18%.
Heildarkostnaður fyrir flutning, dreifingu og raforku til almennra heimilisnota fyrir heimili í dreifbýli kostar 95.755 kr. á svæði Orkubús Vestfjarða dreifbýli og 95.696 kr. hjá Rarik dreifbýli/Orkusalan en þá hefur verið tekið tillit til sérstaks dreifibýlisframlags.
Rétt er að vekja athygli á því að ákveði heimili að kaupa raforkuna hjá öðru fyrirtæki en því sem sér um flutning og dreifingu á viðkomandi landssvæði, mun raforkureikningur heimilisins berast í tvennu lagi. Einn fyrir flutning og dreifingu og annar fyrir orkusölu. Neytendur ættu því að kynna sér hvort seðilgjald sé innheimt aukalega hjá raforkusalanum og hvort komast megi hjá því t.d. með rafrænum greiðsluseðlum þannig að kostnaður við skiptin verði ekki meiri en sem nemur verðmun á milli söluaðila.
Sjá nánar sundurliðaðan kostnað við flutning, dreifingu og orkusölu í töflu á heimasíðu ASÍ.