Trúnaðarmenn

Hlutverk trúnaðarmanna á vinnustöðum er mjög mikilvægt, bæði fyrir félagsmennina og ekki síður fyrir stéttarfélagið.

Hér á eftir verður fjallað um hlutverk trúnaðarmannsins en um það er skýrt kveðið í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Enn fremur eru ákvæði í kjarasamningum um trúnaðarmenn.

Trúnaðarmaður er fulltrúi starfsmanna og er kjörinn af þeim. Hann á að gæta réttar starfsmanna (skv.9.gr. laga um Stéttarfélög og vinnudeilur) Þar segir; „Trúnaðarmaður skal gæta þess að gerðir vinnusamningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt verkamanna.“

Verkamönnum ber að snúa sér til trúnaðarmannsins með umkvartanir sínar yfir atvinnurekenda og fulltrúum hans. Honum ber þá að rannsaka málið strax. Komist hann að því að umkvartanir eigi við rök að styðjast skal hann snúa sér til atvinnurekandans eða fulltrúa hans með umkvörtun og kröfu um lagfæringu. Trúnaðarmaðurinn þarf ekki að bíða þess að kvörtun berist, ef hann grunar að það sé verið að brjóta á starfsmanni getur hann hafist handa við að skoða málið.

Trúnaðarmaður skal hafa aðgang að læstri hirslu á vinnustað og er heimilt að sinna vinnu sinni sem trúnaðarmaður í samráði við verkstjóra og eiga laun hans ekki að skerðast af þeim sökum.

Trúnaðarmanni er heimilt að boða til vinnustaðafunda tvisvar á ári í samráði við stéttarfélagið og atvinnurekanda. Fundinn skal boða með þriggja daga fyrirvara og skal fundurinn haldinn á vinnutíma.

Í fyrirtækjaþætti kjarasamninga er kveðið á um það að trúnaðarmenn fyrirtækis séu í forsvari í viðræðum við stjórnendur. Þó má kjósa fleiri menn í samninganefnd og skal henni tryggður tími til að sinna undirbúningi og samningagerð í vinnutíma.

____________________________________________________________________________________