Risnu-, gjafa- og ferðakostnaðarreglur Öldunnar stéttarfélags
1. kafli
Gildissvið
1. gr.
Í reglum þessum á „fulltrúi Öldunnar stéttarfélags“ við um félaga í stjórnum, nefndum og
ráðum félagsins, trúnaðarmenn og starfsfólk, svo og aðra þá sem koma fram fyrir hönd
félagsins.
Ákvæði þessara reglna eiga við hvort heldur fulltrúi Öldunnar stéttarfélags þiggur laun fyrir
störf sín eða ekki.
2. gr.
Formaður kemur almennt fram fyrir hönd Öldunnar stéttarfélags í samskiptum við önnur félög,
landssambönd, fyrirtæki, stofnanir og aðra aðila sem félagið hefur samskipti við. Formanni er
heimilt að velja staðgengil úr stjórn félagsins í sinn stað.
2. kafli
Risna og veitingar
3. gr.
Veitt risna skal ætíð vera í samræmi við tilefni, s.s. kaffiveitingar eða málsverðir, enda kalli
tilefni á veitingar.
4. gr.
Formaður Öldunnar stéttarfélags hefur umboð til að bjóða gestum eða kalla til sérfræðiaðstoð
vegna verkefna, telji hann þörf og tilefni til. Heimilt er að greiða ferðir, veitingar, gistingu og
annan kostnað vegna gesta, ræðumanna eða annarra sérfræðinga sem Aldan stéttarfélag fær til
að taka þátt í ráðstefnum, fundum eða öðrum verkefnum félagsins.
5. gr.
Þegar fulltrúar félagsins taka þátt í ráðstefnum, málþingum eða öðrum formlegum viðburðum
þar sem gert er ráð fyrir sameiginlegum máltíðum er fulltrúum Öldunnar stéttarfélags heimilt
að taka þátt í slíkum málsverðum velji þeir að gera slíkt. Samráð skal haft við formann um
uppgjör vegna þess kosnaðar. Áfengi telst ekki hluti málsverðar. Í tengslum við þing
landssambanda og/eða aðra viðburði þar sem Aldan stéttarfélag á fulltrúa, er þó heimilt að
greiða hátíðarkvöldverð fyrir fulltrúa félagsins ásamt áfengum drykk með mat. Sjá nánar 6.
grein um áfengisveitingar.
6. gr.
Áfengisveitingum skal stilla í hóf ef veittar eru. Miðað skal við fordrykk þar sem það á við,
hóflega veitt borðvín með mat og drykk með kaffi þegar það á við.
3. kafli
Gjafir
7. gr.
Formanni/prókúruhafa er heimilt að ráðstafa hóflegum fjárhæðum vegna gjafa til handa
stjórnarmönnum, fyrrverandi stjórnarmönnum, starfsmönnum og/eða félagsmönnum sem gegnt
hafa trúnaðarstörfum fyrir Ölduna stéttarfélag. Tilefni slíkra gjafa skal vera t.d. starfslok,
stórafmæli eða aðrir viðlíka viðburðir.
8. gr.
Formanni/prókúruhafa er heimilt að ráðstafa hóflegri fjárhæð ár hvert til:
a. jólagjafa fyrir starfsmenn
b. merktrar vöru til dreifingar sem formaður/prókúruhafi telur við hæfi.
4. kafli
Ferðakostnaður
9. gr.
Ferðir á vegum félagsins skulu ákveðnar í samráði við formann. Formaður/prókúruhafi skal sjá
um að bóka en getur falið það öðrum í sínu umboði.
10. gr.
Fulltrúar Öldunnar stéttarfélags sem sinna erindum fyrir félagið fá greiddan ferða- og
dvalarkostnað, ásamt tekjutapi eins og við á hverju sinni. Dagpeningar og bifreiðarkostnaður
eru greiddir skv. Ferðakostnaðarnefnd ríkisins. Fylla skal út ferðakostnaðareyðublað vegna
ferðakostnaðar. Þar skal koma fram tilefni ferðar, dagsetning, upphafs- og áfangastaður.
11. gr.
Þegar fulltrúar Öldunnar sækja fundi, ráðstefnur eða önnur erindi fjarri heimili skal þeim séð
fyrir gistingu. Óski fulltrúi félagsins ekki eftir að nýta þá gistingu er viðkomandi á eigin
vegum og á hann þá ekki kröfu um greiðslu gistikostnaðar.
12. gr.
Þegar fulltrúar Öldunnar stéttarfélags dvelja næturlangt fjarri heimili í erindum félagsins og
hafa bílaleigubíl til afnota er þeim heimilt að sinna einkaerindum utan vinnutíma á bílnum
enda sé notkun hans stillt í hóf.
Bifreiðakostnaður er greiddur fulltrúum Öldunnar stéttarfélags skv. ferðakostnaðareyðublaði.
Miða skal greidda kílómetra við heimili viðkomandi.
Þegar fulltrúar Öldunnar stéttarfélags sækja saman fundi eða viðburði skulu þeir leitast við að
sameinast um bíla til að halda ferðakostnaði í lágmarki.
5. kafli
Viðbrögð við broti á reglum þessum
13. gr.
Ef ástæða þykir getur stjórn óskað eftir yfirliti um ferðakostnað.
Stjórn skal meðhöndla slík mál með ýtrasta trúnaði þar til niðurstaða fæst í málið.
Telji stjórn Öldunnar veitta risnu og/eða greiddan ferðakostnað hafa farið úr hófi, tilefni ekki
skýrt og/eða í samræmi við vilja stjórnar, er stjórn skylt að rannsaka málið. Ef stjórn
Öldunnar stéttarfélags þykir ástæða til að kanna ofangreind atriði getur hún kallað til lögmann
og/eða endurskoðanda til aðstoðar.
Stjórn ber að fylgja verklagsreglum stjórnar um viðbrögð við brotum á reglum þessum.
Greiddri risnu, gjöfum og/eða ferðakostnaði sem formaður/prókúruhafi hefur samþykkt og
greitt út eða afhent verður ekki rift af stjórn nema hún telji að um sviksamlegt athæfi sé að ræða.
Þá getur stjórnin falið lögmanni Öldunnar stéttarfélags að krefja viðkomandi um endurgreiðslu.
Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins 28.04.2015.