Skip to main content

Nokkur umræða hefur spunnist um lækkun tryggingargjalds í aðdraganda kosninga en ASÍ vill árétta mikilvægi réttinda launafólks í atvinnuleysi, fæðingarorlofi og við gjaldþrot fyrirtækja.

Nokkur umræða hefur spunnist um lækkun tryggingargjalds í aðdraganda kosninga en ASÍ vill árétta mikilvægi réttinda launafólks í atvinnuleysi, fæðingarorlofi og við gjaldþrot fyrirtækja. Einnig er mikilvægt að samhengi sé milli stöðu sjóðanna sem greitt er úr og iðgjaldsins þó þannig að ákveðin sjóðssöfnun eigi sér stað til að mæta áföllum í atvinnulífinu. Þannig er ekki óeðlilegt að iðgjald sé lækkað þegar svigrúm er til á sama hátt og það er hækkað þegar á reynir. Verkalýðshreyfingin hefur hins vegar sett sig algerlega á móti því að skerða réttindi í þessum sjóðum til þess að rýma til fyrir lækkun iðgjaldsins.

Frá því eftir hrun hefur þessu viðkvæma jafnvægi milli réttinda og iðgjalda verið raskað verulega. Bætur atvinnuleysistrygginga, sem hlutfall af kaupgjaldi í landinu, hafa aldrei verið lægri en nú, auk þess sem bótatímabilið hefur verið stytt um 6 mánuði. Þetta er gert á einhverju mesta góðærisskeiði Íslandssögunnar! Bætur í fæðingarorlofi eru einnig verulega undir meðaltekjum í landinu og bótatímabilið aðeins 9 mánuði þrátt fyrir að útilokað sé að fá almenna dagvistun fyrir ungabörn eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur. Sömu sögu er að segja um Ábyrgðarsjóð launa, einnig þar hefur hámarksfjárhæð ríkisábyrgðar ekki verið látin fylgja kaupgjaldi í landinu og er langt undir meðaltekjum sem kemur illa niður á einstaklingum sem fá ekki greidd laun við gjaldþrot fyrirtækja. Úr þessu verður að bæta nú þegar og ekki kemur til álita að lækka tryggingagjaldið fyrr en það hefur verið gert.

Krafa Alþýðusambandsins er að sjóðirnir verði færðir úr A-hluta ríkissjóðs (bein rekstrarábyrgð ríkisins) yfir í C-hluta ríkissjóðs (með bakábyrgð ríkisins á þeim réttindum sem þar eru), sjálfstæði þeirra aukið verulega og aðilum vinnumarkaðarins falið að fara með stjórn þeirra.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is