Skip to main content

Pistill Drífu Snædal

Það hefur verið lífseig hugmynd að við búum í stéttlausu samfélagi. Það hefur aldrei verið raunin og við erum sannanlega ekki öll á sama báti. Sumir njóta svo mikils arðs af sameiginlegum auðlindum að hægt er að kaupa heilt sjúkrahús á meðan þau sem búa til arðinn veigra sér við að fara til læknis af því það er of dýrt.

Eitt eftirminnilegasta atriðið úr áramótaskaupinu fjallaði um hommablóð. Það var beitt, vakti umræðu um öryggi blóðgjafar og tvískinnung í reglum. Svo var það fyndið líka. Það er ekki lengra síðan en á níunda áratugnum sem því var velt upp í alvöru í íslenskum fjölmiðlum hvort „kynvillingar“, eins og hommar voru þá kallaðir, væru með kvenkyns heila en karlmanns líkama. Síðan þá hefur okkur miðað talsvert áfram.

Við erum lítið land og það er bæði gott og slæmt. Það besta við að vera nánast á stærð við tilraunastofu í stóra samhenginu er að nýjar hugmyndir eru fljótar að berast, við erum fljót að tileinka okkur hluti og sannmælast um góðar breytingar. Framfarir í mannréttindum, meðal annars samkynhneigðra, er mjög gott dæmi.

Það hefur verið lífseig hugmynd að við búum í stéttlausu samfélagi. Það hefur aldrei verið raunin og við erum sannanlega ekki öll á sama báti. Sumir njóta svo mikils arðs af sameiginlegum auðlindum að hægt er að kaupa heilt sjúkrahús á meðan þau sem búa til arðinn veigra sér við að fara til læknis af því það er of dýrt. Sumir hafa örlög einstakra bæjarfélaga í hendi sér á meðan aðrir eru í átthagafjötrum vegna óboðlegs húsnæðismarkaðar.

Flest viljum við búa í stéttlausu samfélagi af því það er í samræmi við hugmyndir okkar um sanngirni og réttlæti. Góðu fréttirnar eru þær að við getum sannmælst um að stefna þangað og kjarasamningar eru kjörið tækifæri til þess. En til þess þurfum við að viðurkenna að við erum ekki öll á sama báti, við erum ekki ein stétt, sumir hafa það hreinlega afleitt á meðan aðrir maka krókinn. Við getum líka, ef við viljum, ákveðið að hér skulu laun duga fyrir framfærslu, fólk eiga kost á góðu húsnæði, hafa aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu og menntun og geta notið lífsins án þess að vinna sér til húðar. Við höfum breytt samfélaginu oft á síðustu áratugum, stundum til hins verra en oft til hins betra.Tækifærið til breytinga er núna, grípum það.

Kveðja,
Drífa

 

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is