Skip to main content

Kostnaður vegna dagvistunar og fæðis, sem foreldrar greiða samkvæmt almennri gjaldskrá, lækkar hjá flestum sveitarfélögum þegar börn fara úr leikskóla yfir í 1. bekk grunnskóla. Hjá forgangshópum (einstæðum foreldrum og námsmönnum) hækkar þessi kostnaður hins vegar en einungis tvö af fimmtán stærstu sveitarfélögum landsins, Kópavogur og Seltjarnarnes, veita áfram afslátt til þessara hópa þegar börn fara í grunnskóla.

Kostnaður vegna dagvistunar og fæðis, sem foreldrar greiða samkvæmt almennri gjaldskrá, lækkar hjá flestum sveitarfélögum þegar börn fara úr leikskóla yfir í 1. bekk grunnskóla. Hjá forgangshópum (einstæðum foreldrum og námsmönnum) hækkar þessi kostnaður hins vegar en einungis tvö af fimmtán stærstu sveitarfélögum landsins, Kópavogur og Seltjarnarnes, veita áfram afslátt til þessara hópa þegar börn fara í grunnskóla.

Verðlagseftirlit ASÍ skoðaði hvernig kostnaður foreldra í 15 stærstu sveitarfélögum landsins breytist við að barn færist frá leikskóla yfir í grunnskóla. Miðað var við eitt barn í vistun í 8 tíma á leikskóla með mat og í 3 tíma í skóladagvist með hádegismat og síðdegishressingu.

Gjaldskrár fyrir leikskóla voru bornar saman við gjaldskrá skóladagvistunar, en ekki var tekið tillit til neinna gjalda sem gætu verið innheimt aukalega eða mat lagt á gæði þjónustunnar.

Kostnaður lækkar víðast en hækkar um 27% á Seltjarnarnesi
Kostnaður vegna gæslu eins barns með fæði lækkar um 3-62% í 13 af 15 stærstu sveitarfélögunum þegar barnið flyst frá leikskóla yfir í grunnskóla hjá þeim sem greiða samkvæmt almennri gjaldskrá. Mest lækkar hann í Vestmannaeyjum um 15.218 kr. eða 62%, Sveitarfélaginu Skagafirði um 11.980 kr. eða 49% og í Reykjanesbæ um 10.020 kr. eða 32%. Kostnaðurinn hækkar hins vegar á Seltjarnarnesi um 9.702 kr. á mánuði eða 27% og í Kópavogi um 1.371 kr. eða um 4%.

 

Kostnaður forgangshópa hækkar í flestum sveitarfélögum
Þegar sami kostnaður er skoðaður fyrir forgangshópa, sem eru í flestum sveitarfélögum námsmenn og einstæðir foreldrar, kemur annað mynstur í ljós þar eð kostnaður þessa hóps hækkar í flestum tilfellum talsvert þegar barn fer á milli skólastiga. Einungis tvö sveitarfélög, Seltjarnarnes og Kópavogur, tilgreina afslátt fyrir þennan hóp í gjaldskrá sinni fyrir skóladagvistun, en öll sveitarfélög veita afslátt fyrir þennan hóp af leikskólagjöldum.

 

Í 6 af 15 sveitarfélögum sem skoðuð eru lækkar kostnaður forgangshópa. Mesta lækkunin er í Vestmannaeyjum en þar lækkar kostnaður foreldra um 6.386 kr., hjá Sveitarfélaginu Skagafirði nemur lækkunin 4.844 kr., á Seltjarnarnesi munar 4.392 kr. og hjá Reykjanesbæ  3.620 kr. Hlutfallslega lækkar kostnaður mest á Seltjarnarnesi um 31%, í Vestmannaeyjum 26% og Sveitarfélaginu Skagafirði um 20%.

Hins vegar hækkar kostnaður mest í Garðabæ eða um 10.403 kr, í Reykjavík um 8.573 kr og á Akureyri um 8.336 kr. Hjá öðrum sveitarfélögum er munurinn minni. Hlutfallslega hækkar kostnaðurinn mest í Reykjavík eða um 33%, hjá Garðabæ um 29% og á Akureyri um 24%.

Sjá nánari samanburð í töflu á heimasíðu ASÍ

Mjög misjafnt er á milli sveitarfélaga hvernig gjaldskráin fyrir þjónustu við grunnskólabörn er uppbyggð. Til dæmis er hámarksgjald, mánaðargjald, aukagjald fyrir gæslu á starfsdögum, aukagjald fyrir aðstoð við heimanám  og skráningargjald. Einnig er hádegismatur seldur í formi annaráskriftar, mánaðargjalds, klippikorts eða sem stakar máltíðir. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélagana miðar verðlagseftirlitið samanburð sinn við 21 virkan dag í mánuði, vistun í þrjá tíma á dag ásamt hressingu í síðdegisvistinni. Fyrir leikskólabörn er miðað við 8 stunda vistun með fæði.

Einungis er um verðsamanburð að ræða, ekki er lagt mat á gæði þjónustunnar.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is