Skip to main content

Það að Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva skuli sniðganga ráðgjafarnefnd sjávarútvegsráðherra um fiskveiðistjórnunarkerfið er mikil vonbrigði. Það er ekki vænlegt til árangurs að stunda hótanir og ofríki í stað málefnalegrar umræðu. Þetta kemur fram í ályktun sem Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands samþykkti í vikunni.

Ályktun Framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands 16. mars 2010

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins lýsir vonbrigðum yfir fjarveru Landssambands Íslenskra Útvegsmanna og Samtaka Fiskvinnslustöðva úr Ráðgjafanefnd sjávarútvegsráðherra um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er ekki vænleg leið til farsællar niðurstöðu og sátta að stunda hótanir og ofríki í stað málefnalegrar umræðu og þá sérstaklega ekki þegar horft er til þeirra sérhagsmuna sem útvegsmenn eru að vernda.

Það hlýtur að valda Samtökum atvinnulífsins  áhyggjum hvernig stór samtök innan þeirra vébanda leyfa sér að nálgast viðfangsefnið í svo mikilvægu máli sem fiskveiðistjórnunarkerfið er. Þótt sjávarútvegsráðherra leggi fram lagafrumvörp, tengd fiskveiðistjórnunarkerfinu, þá réttlætir það engan veginn harkaleg viðbrögð útvegsmanna. Starfsgreinasambandið gerir hins vegar kröfu til þess að sjávarútvegsráðherra gefi nefndinni þann frið sem hún þarf til að ljúka málinu.

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins leggur áherslu á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda í þágu atvinnulífs og verðmætasköpunar.  Ábyrgar veiðar byggja á vísindalegu mati, markvissu eftirliti,  hagkvæmni og umhverfissjónarmiðum. Taka verður mið af byggðarsjónarmiðum við löndun og vinnslu sjávarfangs, þannig að útvegsmenn séu ekki einráðir um löndun hráefnis til fiskvinnslustöðva eða sölu á erlenda markaði.

Ekki ríkir sátt meðal þjóðarinnar um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi en skilningur er fyrir því að útvegsmenn fái aðlögun að nýju fyrirkomulagi um leið og eðlileg endurnýjun verði tryggð í greininni.

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands bindur miklar vonir við störf nefndarinnar og hvetur hagsmunaaðila sem tilnefndu í Ráðgjafanefndina til að vinna heilshugar að því að skapa frið um íslenskan sjávarútveg. Það verður best gert með því að hagsmunaaðilar kappkosti að ná sameiginlegri niðurstöðu í málinu þar sem tillit verði  tekið til sem flestra sjónarmiða í stað þess að sitja hjá við vinnu nefndarinnar

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is