Skip to main content

Fiskikóngurinn Sogavegi var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á fiskafurðum í vikunni, eða í 11 tilvikum af 34. Litla fiskbúðin í Helluhrauni var næst oftast með lægsta verðið eða í 9 tilvikum.

Fiskikóngurinn Sogavegi var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á fiskafurðum í vikunni, eða í 11 tilvikum af 34. Litla fiskbúðin í Helluhrauni var næst oftast með lægsta verðið eða í 9 tilvikum. Hafið fiskverslun var oftast með hæsta verðið í könnuninni eða í nærri þriðjungi tilvika og Gallerý fiskur Nethyl var með hæsta verðið í 8 tilvikum. Melabúðin, Fiskbúðin Vegamót, Litla fiskbúðin Miðvangi og Fiskbúðin Hafberg neituðu fulltrúum verðlagseftirlitsins um að framkvæma verðkönnun í verslunum sínum. 

Flestar tegundir í könnuninni voru fáanlegar hjá Gallerý fisk, eða 33 af 34 en Fiskbúðin Sundlaugavegi, Fiskbúðin Trönuhrauni og Fiskikóngurinn áttu 32 tegundir í verslunum sínum. Minnsta úrvalið var hjá Fiskverslun Hveragerðis þar sem einungis 11 tegundir af 34 voru fáanlegar.

Munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni var frá 30% upp í 134% en í flestum tilvikum reyndist munurinn á bilinu 40%-60%. Mestur verðmunur reyndist á frosnum fiskibollum sem voru dýrastar á 1.980 kr./kg. hjá Fiskbúð Hólmgeirs í Mjódd en ódýrastar á 845 kr./kg. hjá Fiskikónginum en það er 1.135 kr. verðmunur eða 134%. Minnstur verðmunur var á þorskflökum með roði og beini sem voru ódýrust á 1.503 kr./kg. hjá Seljakjör en dýrust á 1.950 kr./kg. hjá Gallerý fisk, sem er 447 kr. verðmunur eða 30%.

Mikill verðmunur á bleikjuflökum
Bleikjuflök með roði voru ódýrust á 1.890 kr./kg. hjá Litlu Fiskbúðinni en dýrust á 3.150 kr./kg. hjá Kjöt og fiski sem er 67% verðmunur. Rauðsprettuflök voru ódýrust á 1.350 kr./kg. hjá Fiskbúðinni Trönuhrauni en dýrust á 2.490 kr./kg. hjá Hagkaupum Kringlunni sem er 84% verðmunur. Roðflett og beinlaus ýsuflök voru ódýrust á 1.590 kr./kg. hjá Fiskikónginum Sogavegi en dýrust á 2.190 kr./kg. hjá Kjöt og fiski sem er 38% verðmunur eða 600 kr.

Sjá nánari niðurstöður úr könnuninni  í töflu á heimasíðu ASÍ.

Könnunin var gerð á fiskafurðum í 22 fiskbúðum og öðrum verslunum með fiskborð mánudaginn 10. október 2016. Kannað var verð á 34 algengum tegundum fiskafurða. Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Kjöt og fisk Bergstaðarstræti, Seljakjör Seljabraut, Fiskbúðinni Sundlaugavegi, Fisk kompaní Akureyri, Fiskverslun Hveragerðis, Fiskbúðin Hafberg, Beint úr sjó Reykjanesbæ, Nettó Granda, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Litlu Fiskbúðinni Helluhrauni og Háaleitisbraut, Hafinu fiskverslun Spöng og Skipholti, Fiskbúð Hólmgeirs Þönglabakka, Gallerý fisk Nethyl, Fiskbúðinni Hófgerði, Fiskbúð Sjávarfangs Ísafirði, Fiskbúðinni Mos Mosfellsbæ, Fiskbúð Fjallabyggðar og Hagkaupum Kringlunni.,

 

Melabúðin, Fiskbúðin Vegamót, Litla fiskbúðin Miðvangi og Fiskbúðin Hafberg neituðu þátttöku í könnuninni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.  Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is