Skip to main content

Þann 1. maí sl. tók gildi nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu. ASÍ hefur tekið saman dæmi um kostnaðaraukningu þeirra sem ekki hafa náð kostnaðarþakinu í nýja kerfinu sem er í mörgum tilfellum gríðarleg. ASÍ lýsir því yfir miklum áhyggjum vegna aukins kostnaðar fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu.

Þann 1. maí sl. tók gildi nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu. ASÍ hefur tekið saman dæmi um kostnaðaraukningu þeirra sem ekki hafa náð kostnaðarþakinu í nýja kerfinu sem er í mörgum tilfellum gríðarleg. ASÍ lýsir því yfir miklum áhyggjum vegna aukins kostnaðar fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Af dæmunum má sjá að mikil hækkun er líkleg til að fjölga þeim sem neita sér um heilbrigðisþjónustu enn frekar og mun þetta koma verst niður á konum og fólki í lægstu tekjuhópum samfélagsins. Kostnaður vegna geðheilbrigðisþjónustu vekur sérstakar áhyggjur. Alþingi verður að bregðast við þessari alvarlegu stöðu og tryggja aukna fjármuni inn í nýja kerfið og þar með jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eins og lög um sjúkratryggingar kveða á um.

Meiri kostnaður fyrir flesta
Nýja greiðsluþátttökukerfinu er ætlað að tryggja sjúklinga gegn of háum kostnaði vegna læknisþjónustu, rannsókna og þjálfunar með greiðsluþátttökuþaki. ASÍ hefur áður mótmælt því að ekki sé staðið við loforð um 50.000 kr. árlegt þak fyrir almenna sjúklinga og 33.000 kr. árlegt þak fyrir lífeyrisþega og börn. Þess í stað verður þakið um 70.000 kr. fyrir almenna sjúklinga og 45.500 kr. fyrir lífeyrisþega og börn. Börn með sama fjölskyldunúmer samkvæmt skilgreiningu Þjóðskrár Íslands teljast sem einn einstaklingur í greiðsluþátttökukerfinu.

Fyrir þá sjúklinga sem þurfa mikla þjónustu reglulega mun kostnaðurinn í flestum tilfellum lækka og við gildistöku nýja kerfisins reiknast það sem greitt hefur verið fyrir heilbrigðisþjónustu undangengna fimm mánuði inn í nýtt greiðsluþátttökuþak. En fyrir flesta aðra mun kostnaðurinn hækka. Til viðbótar við þennan kostnað kemur síðan m.a. kostnaður vegna lyfja, tannlæknaþjónustu, sálfræðiþjónustu og hjálpartækja.

Sláandi hækkun
Gjaldskrárkerfi fyrir heilbrigðisþjónustu er oft á tíðum flókið og óaðgengilegt fyrir sjúklinga. ASÍ hefur því tekið saman nokkur dæmi vegna þjónustu hjá sérgreinalæknum sem mun hækka mikið við breytinguna. Hækkunin er sláandi og meiri hjá lífeyrisþegum en almennum sjúklingum. Samkvæmt dæmunum getur hækkunin hjá  almennum sjúklingum numið 10-50% og hjá lífeyrisþegum 68-150%. Samhliða breytingunni er tekið upp tilvísanakerfi fyrir börn. Heilsugæsluheimsóknir verða áfram gjaldfrjálsar fyrir börn og fái þau tilvísun þar til sérgreinalækna er sú þjónusta einnig gjaldfrjáls. Án tilvísunar til sérgreinalæknis greiða þau þriðjung af almennu gjaldi og getur kostnaður aukist um 125-350% hjá börnum 2–17 ára. Tilvísanakerfið nær ekki til barna að tveggja ára aldri og verður sú þjónusta sem fellur undir kerfið gjaldfrjáls fyrir þau að öllu leyti. Þessari breytingu vill ASÍ fagna sérstaklega en nauðsynlegt er að auka fjármuni til heilsugæslunnar svo að börn í þörf fyrir heilbrigðisþjónustu fái skjóta afgreiðslu og þeim sé tryggður möguleiki á gjaldfrjálsri læknisþjónustu.

Margir neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar
Mun fleiri fresta læknisheimsóknum á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum vegna kostnaðar. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, sem byggja á evrópskri heilsufarsrannsókn fyrir árið 2015, neituðu um 8% þeirra sem töldu sig þurfa á læknisþjónustu sér um hana vegna kostnaðar. Í rannsókninni kemur fram að ekkert samband er milli tekna og þarfarinnar fyrir heilbrigðisþjónustu, að geðheilbrigðisþjónustu undanskilinni en þörf fyrir hana minnkar með hækkandi tekjum. Alls taldi um fimmtungur aðspurðra sig þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda en þriðjungur þeirra taldi sig ekki hafa ráð á henni. Þeir tekjulægri hafa mun síður ráð á heilbrigðisþjónustu en þeir tekjuhærri og fleiri konur neita sér um þjónustuna en karlar vegna kostnaðar.

Dæmi um breytingu á kostnaðarþátttöku hjá þeim sem ekki hafa náð kostnaðarþaki nýja kerfisins má sjá á þessum myndum inni á heimasíðu ASÍ.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is