Skip to main content

Starfshópur ASÍ um framtíð ferðaþjónustunnar skilaði skýrslu til miðstjórnar sambandsins í gær þar sem eftirfarandi stefnuskjal með áherslum ASÍ um uppbyggingu ferðaþjónustunnar var samþykkt.

Starfshópur ASÍ um framtíð ferðaþjónustunnar skilaði skýrslu til miðstjórnar sambandsins í gær þar sem eftirfarandi stefnuskjal með áherslum ASÍ um uppbyggingu ferðaþjónustunnar var samþykkt.

Tillaga að stefnu ASÍ – kröfur launafólks
Íslensk ferðaþjónusta stendur á tímamótum. Vöxtur hennar var þegar á undanhaldi fyrir COVID-faraldurinn en með takmörkunum á samkomum og samgöngum er greinin því sem næst á ís. Þessi staða gefur á hinn bóginn færi á að leggja mat á þá reynslu sem fékkst á miklum uppgangstímum ferðaþjónustu á Íslandi fram að faraldrinum. Alþýðusamband Íslands telur að þann tíma eigi að nýta áður en „endurræsing“ greinarinnar fer fram og setur hér fram stefnu sína í sex meginliðum:

Aðkoma að stefnumótun
• Í stefnu stjórnvalda um ferðaþjónustuna er aldrei vikið að starfsfólki í greininni, þrátt fyrir að ríkar kröfur séu gerðar til starfsfólks.

• ASÍ krefst þess að réttindi og hagsmunir launafólks verði einn af hornsteinum við uppbyggingu ferðaþjónustunnar.

• Verkalýðshreyfingin á skýlausan rétt á aðkomu að stefnumótun stjórnvalda um framtíð og enduruppbyggingu ferðaþjónustunnar.

Höfnum ferðaþjónustu sem láglaunagrein
• ASÍ hafnar því viðhorfi að eðlilegt megi teljast að laun innan ferðaþjónustu séu lág og það sé ásættanlegt að byggja upp láglaunaatvinnugrein í samfélagi sem vill kenna sig við velferð.

• Í ljósi mikilvægis greinarinnar fyrir íslenskt hagkerfi á að mynda sátt um að greidd skuli sanngjörn laun fyrir störf í ferðaþjónustu, enda á starfsemin að einkennast af fagmennsku og góðri upplifun þeirra sem sækja landið heim.

• Bætt kjör starfsfólks eiga að vera þungamiðja í tillögum stjórnvalda um aukna arðsemi ferðaþjónustunnar. Arðsemi verður ekki náð með því að færa verðmæti ferðaþjónustunnar, sem eru sköpuð af starfsfólki og einstakri náttúru, í vasa örfárra fyrirtækjaeigenda.

• Krafa verkalýðshreyfingarinnar er sú að innan ferðaþjónustu séu greidd sanngjörn laun sem nægi til framfærslu samkvæmt opinberum viðmiðum og að ákvæði gildandi kjarasamninga séu virt í einu og öllu.

• Settar verði reglur um að eingöngu leiðsögumenn með menntun á Íslandi megi fylgja hópum um helstu náttúruperlur landsins. Einnig megi skoða frekari löggildingar og verndun starfsheita í greininni.

Gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði
• ASÍ krefst þess að brotastarfsemi í ferðaþjónustu verði upprætt þegar í stað.

• Frumvarp til starfskjaralaga með sterku ákvæði um févíti verði lagt fram á Alþingi án tafar og stjórnvöldum tryggi að brotamenn þurfi að gjalda fyrir brot sín.

• Verkalýðshreyfingin krefst þess að gildandi regluverki um erlend fyrirtæki sem skipuleggja ferðir á Íslandi verði breytt til að uppræta brotastarfsemi.

• Félagsleg undirboð í ferðaþjónustu verði stöðvuð. Sem dæmi um birtingarmyndir þeirra er þegar ungmenni, oft erlend, eru látin vinna launalaust sem sjálfboðaliðar eða „starfsnemar“ og þegar erlend fyrirtæki standa að ferðum til Íslands og notast við erlent starfsfólk sem ekki nýtur kjarasamningsbundinna launa og réttinda.

• Frumvarp um atvinnurekstrarbann verði samþykkt á Alþingi þegar í stað en því er ætlað að koma í veg fyrir kennitöluflakk.

• Stórefla þarf eftirlit með húsnæði sem atvinnurekendur útvega starfsfólki og tryggja að þar sé ekki farið á svig við lög og reglur.

Atvinnurekendur þekki réttindi og skyldur
• Verkalýðshreyfingin telur að gera beri kröfu um lágmarksþekkingu (t.d. námskeið) stofnanda/rekstraraðila fyrirtækja. Sá sem hefur með rekstur fyrirtækis og mannahald að gera ljúki námskeiði þar sem farið er yfir starfsmannahald réttindi og skyldur. Verkalýðshreyfingin gengst fyrir trúnaðarmannanámskeiðum og námskeiðum fyrir stjórnarmenn í lífeyrissjóðum. Ætla má að Samtök atvinnulífsins gætu gert hið sama.

Innviðir og störf
• Verkalýðshreyfingin fer fram á að tíminn sé nýttur til uppbyggingar innviða sem skapar störf og atvinnu í erfiðri efnahagskreppu og býr í haginn fyrir enduruppbyggingu ferðaþjónustunnar.

• Gjaldtaka vegna innviða á undir engum kringumstæðum að leggjast á almenning.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is