Skip to main content

Á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands, sem haldinn var í dag í Reykjavík, var ályktað um ábyrgð atvinnurekenda og hins opinbera varðandi stöðu kjaramála.

Á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands (SGS),  sem haldinn var í dag í Reykjavík, var eftirfarandi ályktun samþykkt um stöðu kjaraviðræðna og ábyrgð atvinnurekenda og hins opinbera.

Formannafundur Starfsgreinasambandsins lýsir áhyggjum af stöðunni á vinnumarkaði. Stór hluti aðildarfélaga SGS felldi þá samninga sem undirritaðir voru í desember síðastliðnum og engar formlegar viðræður eru hafnar við fulltrúa fjármálaráðuneytisins vegna samninga SGS og ríkisins sem runnu út um síðustu mánaðamót. Þá brýna aðrir opinberir starfsmenn verkfallsvopnið um þessar mundir og ljóst að ýmislegt þarf að koma til umfram þær kauphækkanir sem samið var um í desember svo friður ríki á vinnumarkaði á komandi mánuðum. 
 
Það stendur vissulega uppá atvinnurekendur að mæta launafólki sem hafnaði kjarasamningum í atkvæðagreiðslu og hafa ýmsar hugmyndir verið kynntar í þá veru af hálfu launafólks. Atvinnurekendur bera hins vegar ekki einir ábyrgð. Í aðdraganda og eftirleik kjarasamninganna í desember var það ljóst að launafólk kallar ríkisvaldið og sveitarfélög til ábyrgðar á bættum kjörum. Þær gjaldskrárhækkanir sem tóku víða gildi um áramót voru í hrópandi ósamræmi við nýgerða kjarasamninga og urðu til þess að draga úr trú launafólks á að takast mætti að halda niðri verðbólgu og auka kaupmátt. Þá hafa félög innan Starfsgreinasambandsins haldið til haga kröfu um hækkun persónuafsláttarins eða að skattabreytingar kæmu með öðrum hætti þeim tekjulægstu til góða. Ríkisvaldið verður að kannast við sinn hluta ábyrgðarinnar á að friður ríki á vinnumarkaði. Formenn Starfsgreinasambandsins krefjast þess að samtök launafólks eigi aðkomu að gjaldskrárbreytingum og leggja áherslu á að létt sé álögum af fólki sem þarf að nýta sér heilbrigðisþjónustu.

Launafólk skorast ekki nú frekar en fyrri daginn undan því að ganga til kjarasamninga og virða þá en ljóst er að nú liggur ábyrgðin hjá atvinnurekendum og hinu opinbera að bjóða ásættanlega lausn á vinnumarkaði.“

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is