Skip to main content

Einn réttur – ekkert svindl !

Alþýðusamband Íslands hefur í samstarfi við aðildarsamtök sín hleypt af stokkunum verkefninu Einn réttur, ekkert svindl ! Verkefninu er beint gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi en síðustu mánuði hafa stéttarfélögin orðið vör við vaxandi brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Alþýðusamband Íslands hefur í samstarfi við aðildarsamtök sín hleypt af stokkunum verkefninu Einn réttur, ekkert svindl ! Verkefninu er beint gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi en síðustu mánuði hafa stéttarfélögin orðið vör við vaxandi brotastarfsemi á vinnumarkaði. Sérstaklega í byggingargeiranum og ferðaþjónustunni sem eru helstu vaxtargreinar í þeirri uppsveiflu sem nú ríkir á vinnumarkaði.

Samkvæmt mati Vinnumálastofnunnar fjölgaði störfum um 5.500 á síðasta ári og áætlað er að störfum fjölgi um yfir 8.000 á næstu þremur árum. Það má því ljóst vera að ekki er möguleiki að manna öll þessi störf með öðrum hætti en að flytja inn starfsmenn erlendis frá. En það eru einmitt erlendir starfsmenn og ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði sem helst er verið að brjóta á.

Birtingarmyndir brotastarfseminnar eru fjölmargar. Algengast er að laun og önnur starfskjör séu langt undir þeim kjarasamningsbundnu réttindum sem hér gilda. Inn á borð stéttarfélaganna koma mál þar sem veikinda- og slysaréttur er ekki virtur. Ung stúlka slasaði sig við vinnu en var látin halda áfram að vinna. Seinna kom í ljós að hún hafði handleggsbrotnað og var þá sagt að taka sér frí (launalaust) meðan hún jafnaði sig. Annað dæmi er svokallaður prufutími eða reynsluráðning þar sem ungmenni eru látin vinna launalaust í einhverja daga en sumir atvinnurekendur telja fjarstæðu að borga fólki meðan það er að „læra“. Það er síðan alveg óvíst hvort af ráðningu verður eða næsti starfsmaður til prufu tekur við.

Mikill fjöldi starfsmanna frá A-Evrópu hefur komið hingað til lands til starfa í byggingariðnaði síðustu mánuði. Oft í tímabundið starf hjá erlendum verktakafyrirtækjum og starfsmannaleigum. Þessir starfsmenn eru hvergi skráðir og eru á launum og öðrum starfskjörum eins og tíðkast í þeirra heimalöndum. Í sumum tilfellum er um að ræða fagmenntaða starfsmenn með áratuga reynslu sem ráðnir eru á sömu kjör og 18 ára unglingar sem eru að byrja á vinnumarkaði. Þessi hluti vinnumarkaðarins er að mestu undir yfirborðinu þó það beri að skrá starfsmennina hjá Vinnumálastofnun og þeir eigi að njóta kjara og réttinda samkvæmt kjarasamningum og lögum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Þriðja dæmið eru erlend ungmenni sem koma hingað í sjálfboðavinnu en nokkuð hefur verið um það að fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustu, ráði til sín sjálfboðaliða í ólaunaða vinnu. Ef um efnahagslega starfsemi er að ræða í samkeppni við önnur fyrirtæki þá ber að greiða kjarasamningsbundin laun fyrir vinnuna.

Fyrir utan þann skaða sem einstakir starfsmenn verða fyrir vegna brotastarfseminnar liggur fyrir að þessi fyrirtæki eru að skjóta sér undan því að greiða sína skatta og skyldur til samfélagsins. Þá skapar hún þeim  fyrirtækjum sem virða kjarasamninga og lög og vilja greiða sínu fólki sanngjörn laun óásættanlega samkeppnisstöðu. Mikilvægt er að sporna við þessari brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði áður en hún nær að festa hér rætur. Það ber öllum fyrirtækjum að virða þær reglur sem hér gilda. Það á líka við um erlendu fyrirtækin sem hingað koma með sína starfsmenn.

Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess hafa ákveðið að ráðast að vandanum með öllum tiltækum ráðum. Þar er markvisst og skilvirkt vinnustaðaeftirlit lykilatriði. Samhliða er verið að bæta skráningu og upplýsingamiðlun milli stéttarfélaganna um fyrirtæki og forsvarsmenn þeirra sem uppvísir eru að brotastarfsemi.

Þegar er hafið kynningarátakið Einn réttur – ekkert svindl ! sem beinist annars vegar að erlendum starfsmönnun og hins vegar ungu fólki á vinnumarkaði en mikilvægt er að þessir hópar séu sérstaklega upplýstir um sín réttindi og þá aðstoð sem stéttarfélögin veita.

Komið hefur verið á fót sameiginlegum samráðs- og aðgerðahópi fulltrúa frá þeim stjórnsýslustofnunum sem koma með einum eða öðrum hætti að eftiliti með vinnumarkaðnum og aðilum vinnumarkaðarins. Auk þess að skipuleggja sameiginlegar aðgerðir og miðla upplýsingum sín á milli, vinnur hópurinn að því að skýra og styrkja regluverkið og þá löggjöf sem að þessum málum snýr og auka heimildir í vinnustaðaeftirliti.

Ljóst er að verkefnið er ærið og snýr ekki síst að því að breyta viðhorfinu í samfélaginu til þessara mála því við berum öll ábyrgð og það tapa allir á undirboðum og svartri atvinnustarfsemi nema svindlararnir.

 

 

a

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is