Skip to main content

Á flestum heimilum þurfa foreldrar að skipuleggja frítíma barna sinna í nokkrar vikur á sumrin svo þeir geti sinnt vinnu á meðan skólar landsins eru lokaðir og foreldrar ekki enn komnir í frí. Þess vegna hefur Verðlagseftirlit ASÍ tekið saman yfirlit yfir ýmiskonar sumarnámskeið.

Á flestum heimilum þurfa foreldrar að skipuleggja frítíma barna sinna í nokkrar vikur á sumrin svo þeir geti sinnt vinnu á meðan skólar landsins eru lokaðir og foreldrar ekki enn komnir í frí. Þess vegna hefur Verðlagseftirlit ASÍ tekið saman yfirlit yfir ýmiskonar sumarnámskeið. Mikill verðmunur er á milli þeirra námskeiða sem skoðuð voru. Dýrasta námskeiðið er Dale Carnagie námskeið sem kostar 84.000 kr. og það ódýrasta er rathlaupanámskeið hjá Rathlaupafélaginu Heklu á 1.500 kr.

Það er umtalsverður kostnaður að senda börn og unglinga á hin ýmsu námskeið á sumrin, þrátt fyrir að ódýrasti kosturinn sé valinn. Gera má ráð fyrir að námskeið hálfan daginn í viku kosti um 9.500 kr. og fyrir tveggja vikna námskeið um 8.000 kr. að meðaltali.

Sem dæmi þarf fjölskylda á höfuðborgarsvæðinu með 10 ára gamalt barn sem fer í tvær vikur á námskeið allan daginn og í 3 vikur hálfan allan daginn að greiða 57.900 kr. miðað við valið hér að neðan, og er það fyrir utan greiðslu fyrir gæslu, hressingu og hádegismat.

Fjölskylda á höfuðborgarsvæðinu með 8 ára barn sem fer á eitt 10 daga námskeið allan daginn, í eina viku allan daginn og tvær vikur hálfan daginn þarf að greiða 65.000 kr. miðað við valið hér að neðan, en það er fyrir utan greiðslu fyrir gæslu, hressingu og hádegismat.

Þessi kostnaður getur svo margfaldast ef mörg börn eru í fjölskyldunni og ef börnin/barnið er í lengri tíma yfir sumarið í skipulagðri dagskrá. Hér getur því verið um talsverðar upphæðir að ræða sem reynst geta mörgum fjölskyldum þungur baggi.

Sem dæmi um önnur námskeið sem skoðuð voru má nefna að Eðalhestar eru með viku hestanámskeið allan daginn sem kostar 27.000 kr., 10 daga heildagsnámskeið hjá Fjölgreinaskóla Ármanns og Þróttar kostar 25.000 kr. og heildags klifurnámskeið hjá Klifurhúsinu kostar 22.000 kr. að lokum má nefna að 2 vikna sundnámskeið hjá sundskóla Ægis kostar 6.000 kr.   

Skoðuð voru verð á námskeiðum íþróttafélaga, á vegum íþrótta- og tómstundarráða og –nefnda, sveitarfélaga, skátafélaga og frjálsra félagasamtaka. Námskeiðunum í könnuninni er skipt eftir fjölda námskeiðsdaga og klukkustunda á dag. Víða er boðin gæsla á morgnana áður en námskeiðin hefjast, í hádeginu og eftir að dagskrá námskeiðanna lýkur á daginn. Misjafnt er hvort greiða þyrfti aukalega fyrir þessa gæslu eða hvort hún er innifalin í námskeiðsgjaldinu, sama er að segja um hádegisverð og hressingu, en sjaldnast er matur innifalinn, en oft er hægt að kaupa heitan mat gegn vægu gjaldi. Það gjald sem gefið er upp í könnuninni er ávallt miðað við eitt stakt námskeið þannig að ekki er tekið tillit til afsláttarverðs t.d. iðkendaafsláttar eða systkinaafsláttar. Við samanburð á verði námskeiða er því nauðsynlegt að hafa þetta í huga.

Auk þess ber að athuga að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðunum er ekki metin. Úrvalið af sumarnámskeiðum fyrir börn og unglinga er mjög mikið og þessi könnun nær aðeins yfir hluta þeirra.

 

 

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is