Skip to main content

Stjórn Stapa lífeyrissjóðs hefur staðið fyrir fundum með sjóðfélögunum undanfarna daga. Fundur fyrir félagsmenn Öldunnar og Samstöðu á Blönduósi var haldinn á Blönduósi í gær 1. mars. Hér á eftir er umfjöllun sem Karl Eskil Pálsson, fréttamaður, tók saman eftir fundinn. Þar er m.a. rætt við Þórarin Sverrisson, formann Öldunnar og Kára Arnór Kárason, framkvæmdastjóra Stapa.

Lífeyrissjóðurinn er eign sjóðfélaga

Líflegar umræður sköpuðust um stöðu lífeyrissjóðanna á fundi sem haldinn var á Blönduósi í gærkvöld. Stjórn Stapa lífeyrissjóðs boðar til nokkurra sjóðfélagafunda í samstarfi við stéttarfélögin á næstu dögum. Tilefni fundanna er nýleg skýrsla um úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008. Stór hluti launþega í Skagafirði er í Stapa.

Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri Stapa var ánægður með fundinn á Blönduósi í gær.

 

„Þessi skýrsla dregur ekki upp raunsanna mynd af því hvernig lífeyrissjóðirnir komu út úr hruninu, of mikil áhersla er lögð á hvað fór aflaga. Stapi varð vissulega fyrir höggi í kjölfar bankahrunsins eins og aðrir sambærilegir sjóðir. Það er hins vegar ekki svo að þeir hafi þurrkast upp. Því fer víðs fjarri.“

 

Lífeyrir hefur hækkað um nærri 30 % frá hruni

 

„ Ávöxtunin hefur ekki verið nógu góð til að standa að fullu undir lífeyrisréttindum, sem eru

sem eru verðtryggð auk 3,5% vaxta. Staðan er engu að síður sú að lífeyrir hefur hækkað um nærri 28 % frá hruni, sem er meiri hækkun en hjá þorra launþega. Staða Stapa er nokkuð sterk og við erum langt komin með að jafna okkur eftir hrunið.“

 

Kári Arnór minnir á að lífeyrissjóðir séu ekkert annað en sameiginlegur eftirlaunasparnaður fólks, allar ákvarðanir um fjárfestingar sjóðsins verði að miðast við hag eigendanna.

 

„Ef við berum Stapa saman við aðra lífeyrissjóði stöndumst við ágætlega þann samanburð. Öll starfsemi sjóðsins hefur verið endurskoðuð gaumgæfilega, nú verður eingöngu horft til áhættuþols sjóðsins, ekki til annarra lífeyrissjóða eða fjárfesta.Til að þessi stefna gangi upp þarf vissulega ákveðinn aga.  Stundum eru uppi háværar kröfur um sem besta ávöxtun fjármuna, en við megum ekki gleyma því að lífeyrissjóðir fjárfesta í flestum tilvikum til lengri tíma.“

 

 

Þórarinn Sverrisson formaður Öldunnar stéttarfélags í Skagafirði er formaður stjórnar Stapa lífeyrissjóðs.

 

„Lífeyrissjóðirnir í landinu urðu allir fyrir miklum skakkaföllum í kjölfar hruns bankanna. Sem betur er Stapi að rétta úr kútnum á nýjan leik. Erfiðleikarnir eru þó ekki að baki.

Fjármálamarkaðurinn mjög þungur um þessar mundir, fjárfestingarkostir eru ekki margir. Við vonum auðvitað að úr rætist fljótlega, horfur Stapa til lengri tíma eru ekki slæmar að mínu viti.“

 

Góð samstaða í stjórn

 

„Það eru gerðar mjög ríkar kröfur til fólks sem situr í stjórnum lífeyrissjóða. Meðal annars þarf að standast nokkuð strangt hæfismat, þannig er tryggt að góð og nauðsynleg þekking sé til staðar hjá því fólki sem tekur að sér slíkt ábyrgðarhlutverk. Formennskan í stjórninni er bæði gefandi og áhugavert verkefni. Stjórnin er einhuga um að vinna faglega í einu og öllu er varðar rekstur lífeyrissjóðsins. Við förum með mikla fjármuni, þannig að ábyrgð okkar er mikil.“

 

Þórarinn hvetur fólk til að huga vel að sínum lífeyrismálum og fylgjast með stöðu mála.

„Við hjá Öldunni stéttarfélagi fáum talsvert af fyrirspurnum frá fólki og reynum eftir bestu getu að aðstoða fólk. Þessir fundir á vegum Stapa hafa verið gagnlegir og mættu gjarnan vera fleiri. Við verðum að muna að lífeyrissjóðirnir eru eign þeirra sem greiða í viðkomandi sjóð.“

 

 

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is