Skip to main content

Þriðjudaginn 11. mars sl. kannaði verðlagseftirlit ASÍ verð á ýmsum vörum sem seldar eru í apótekum en skoðaðar voru m.a. vörur eins og plástrar, krem, varasalvi, fæðubótarefni og lúsasjampó.

Mikill verðmunur á vörum frá Saga medica

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á ýmsum vörum sem seldar eru í apótekum, þriðjudaginn 11. mars. Skoðaðar voru m.a. vörur eins og plástrar, krem, varasalvi, fæðubótarefni og lúsasjampó. Farið var í 19 apótek en Árbæjarapótek og Apótek Ólafsvíkur neituðu þátttöku í könnuninni.

Lægsta verðið var oftast að finna hjá Austurbæjar Apóteki, Ögurhvarfi og Apótekinu Skeifunni, Skeifunni 15 eða í 10 tilvikum af 51.
Hæsta verðið var oftast að finna hjá Skipholts Apóteki í 7 tilvikum af 51 og Urðarapóteki Vínlandsleið og Siglufjarðar Apóteki í 6 tilvikum. Oftast var á milli 25-50% verðmunur á hæsta og lægsta verði. Minnsti verðmunur í könnuninni var 14% en mesti 77%. Ekkert apótekanna átti til allar vörurnar sem til skoðunar voru.
 
Mestur verðmunur í könnuninni var á A.Vogel Avena Sativa fyrir svefn (50 ml.) sem var dýrast á 1.540 kr. hjá Austurbæjar Apóteki en ódýrast á 868 kr. hjá Apótekinu Skeifunni en það er 672 kr. verðmunur eða 77%. Minnstur verðmunur var á Prioderm húðlausn fyrir flatlús og hárlús (5 mg./ml. – 55 ml.) sem var dýrast á 1.933 kr. hjá Lyfju Húsavík en ódýrast á 1.690 kr. hjá Siglufjarðar Apóteki, það er 243 kr. verðmunur eða 14%. 
Af öðrum vörum sem skoðaðar voru í könnuninni má nefna að EGF dagkremið (30 ml.) var dýrast á 6.536 kr. hjá Reykjavíkur Apóteki og Apóteki Vesturlands en ódýrast á 5.500 kr. hjá Garðs Apóteki, sem er 1.036 kr. verðmunur eða 19%. Þorskalýsið frá Lýsi (500 stk.) var dýrast hjá Borgar Apóteki á 3.011 kr. en ódýrast hjá Lyfjaveri á 2.150 kr. sem gerir 861 kr. verðmun eða 40%. 
 
Mikill verðmunur á vörum frá Saga medica
Sem dæmi um verðmun á vörum frá sama framleiðanda má benda á vörurnar frá Saga Medica. Skoðaðar voru fjórar vörutegundir frá þeim en þær eru ekki endilega allar ódýrastar eða dýrastar í sömu apótekum. Skoðaðar voru eftirtaldar vörur; Fyrir minnið (30 stk.), Angelica fljótandi (100 ml.), Til heilsubótar (30 stk.) og Saga pro (40 stk.). Mestur verðmunur var á fljótandi Angelicu sem var dýrast hjá Skipholts Apóteki á 2.434 kr. en ódýrast hjá Lyfjaveri á 1.420 kr. sem er 71% verðmunur. Töflurnar Fyrir minnið voru dýrastar hjá Apóteki Vesturlands á 2.465 kr. en ódýrastar hjá Austurbæjar Apóteki á 1.670 kr. sem er 48% verðmunur. Saga pro var dýrast hjá Siglufjarðar Apóteki á 2.850 kr. en ódýrast hjá Lyfjaveri á 1.990 kr. sem er 43% verðmunur. Minnstur verðmunur var á Angelicu til heilsubótar sem var dýrast hjá Reykjavíkur Apóteki á 2.123 kr. en ódýrast hjá Akureyrarapóteki á 1.712 kr. sem er 24% verðmunur.
 
 
Könnunin var gerð í eftirtöldum apótekum: Apóteki Hafnarfjarðar, Tjarnarvöllum 11; Apótekaranum Hafnarstræti 95, Akureyri; Apótekinu Skeifunni, Skeifunni 15; Garðs Apóteki, Sogavegi 108; Lyf og heilsu Selfossi; Borgar Apóteki, Borgartúni; Lyfju Húsavík; Lyfjavali Álftamýri, Álftamýri 1-5; Lyfjaveri, Suðurlandsbraut 22; Reykjavíkur Apóteki, Seljavegi 2; Rima Apóteki, Langarima 21; Skipholts Apóteki, Skipholti 50B; Urðarapóteki, Vínlandsleið 16; Akureyrarapóteki, Kaupangi við Mýrarveg; Apóteki Vesturlands, Smiðjuvöllum 32, Akranesi; Siglufjarðar Apóteki, Norðurgötu 4B; Apóteki Garðabæjar, Litlatúni 3; Apóteki Suðurnesja, Reykjanesbæ; Austurbæjar Apóteki, Ögurhvarfi 3.
 
Árbæjarapótek og Apótek Ólafsvíkur neituðu þátttöku í könnuninni. 
 
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is