Skip to main content

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á 52 algengum lyfjum sem seld eru án lyfseðils i apótekum víðsvegar á landinu sl. þriðjudag. Farið var í 19 apótek en Árbæjarapótek og Apótek Ólafsvíkur neituðu þátttöku í könnuninni.

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á 52 algengum lyfjum sem seld eru án lyfseðils i apótekum víðsvegar á landinu sl. þriðjudag. Farið var í 19 apótek en Árbæjarapótek og Apótek Ólafsvíkur neituðu þátttöku í könnuninni.

Lægsta verðið var oftast að finna hjá Lyfjaveri Suðurlandsbraut í 22 tilvikum af 52 og Garðs Apótek á Sogavegi var ódýrast í 18 tilvikum. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Borgar Apóteki Borgartúni eða í 23 tilvikum af 52.
Verðmunur á lausasölulyfjum var frá 23% upp í 155%, en oftast var fjórðungs til helmings verðmunur á hæsta og lægsta verði.

Verðlagseftirlitið hvetur neytendur til að spyrja um samheitalyf, sem gætu verið á hagstæðara verði og athuga með afsláttakjör. Athygli vekur að lyfsölukeðjur sem ætla mætti að í krafti stærðarhagkvæmni gætu boðið upp á hagstæðari verð en smærri aðilar á markaði eru ekki að gera það.

Mestur verðmunur í könnuninni var á augndropunum Artelac (0,32% – 10 ml.) sem voru dýrastir á 1.505 kr. hjá Apóteki Suðurnesja, Reykjanesbæ en ódýrastir á 590 kr. hjá Garðs Apóteki sem er 915 kr. verðmunur eða 155%.
Minnstur verðmunur í könnuninni var á Nicorette Fruitmint (2 mg. 210 stk.) sem var dýrast á 5.060 kr. hjá Lyf og heilsu Selfossi en ódýrast á 4.122 kr. hjá Lyfju Húsavík sem er 938 kr. verðmunur eða 23%.

Af öðrum algengum lausasölulyfjum má nefna verkjalyfið Paratabs (500 mg. – 30 stk.) sem var dýrast á 456 kr. hjá Apótekaranum Hafnarstræti Akureyri en ódýrast á 325 kr. hjá Garðs Apóteki, sem er 131 kr. verðmunur eða 40%. Sveppaeyðandi kremið Pevaryl (30 gr.) var dýrast á 1.995 kr. hjá Borgar Apóteki en ódýrast á 1.290 kr. hjá Garðs Apóteki sem er 55% verðmunur. Forðatöflurnar Duroferon (100 mg. 100 stk.) voru dýrastar á 2.515 kr. hjá Lyfju en ódýrastar á 1.948 kr. hjá Apóteki Hafnarfjarðar Tjarnarvöllum sem er 29% verðmunur. Gigtarlyfið Glucomed (60 stk.) var dýrast á 2.655 kr. hjá Borgar Apóteki en ódýrast á 1.979 kr. hjá Lyfjaveri Suðurlandsbraut sem er 34% verðmunur.      

Sjá nánar í töflu á heimasíðu ASÍ.

Könnunin var gerð í eftirtöldum apótekum: Apóteki Hafnarfjarðar, Tjarnarvöllum 11; Apótekaranum Hafnarstræti 95, Akureyri; Apótekinu Skeifunni, Skeifunni 15; Garðs Apóteki, Sogavegi 108; Lyf og heilsu Selfossi; Borgar Apóteki, Borgartúni; Lyfju Húsavík; Lyfjavali Álftamýri, Álftamýri 1-5; Lyfjaveri, Suðurlandsbraut 22; Reykjavíkur Apóteki, Seljavegi 2; Rima Apóteki, Langarima 21; Skipholts Apóteki, Skipholti 50B; Urðarapóteki, Vínlandsleið 16; Akureyrarapóteki, Kaupangi við Mýrarveg; Apóteki Vesturlands, Smiðjuvöllum 32, Akranesi; Siglufjarðar Apóteki, Norðurgötu 4B; Apóteki Garðabæjar, Litlatúni 3; Apóteki Suðurnesja, Reykjanesbæ; Austurbæjar Apóteki, Ögurhvarfi 3.

Árbæjarapótek og Apótek Ólafsvíkur neituðu þátttöku í könnuninni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is