Sjúkradagpeningar

Sjúkradagpeningar
Dagpeningar vegna veikinda greiðast frá og með 1. degi eftir að samningsbundinni eða lögákveðinni greiðslu vinnuveitanda lýkur. Dagpeningar greiðast samanlagt í 120 daga á hverjum 12 mánuðum og eru allt að 80% af heildarlaunum viðkomandi.

Þeir sem að greitt hefur verið af til sjóðsins í 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum eiga rétt á bótum á grundvelli iðgjalds sem greitt er til sjóðsins.

Stjórn sjóðsins er heimilt að úrskurða um fleiri bótadaga ef sérstakar ástæður krefjast og skal sjóðurinn setja sér vinnureglur þar að lútandi.

Heimilt er að greiða hluta dagpeninga ef félagsmaður getur ekki stundað fulla vinnu vegna afleiðinga slyss eða veikinda og skal þá greiða mismun á dagvinnulaunum viðkomandi og þess réttar sem hann á til dagpeninga samkvæmt reglugerð þessari.

Sá sem hefur fullnýtt rétt sinn til sjúkradagpeninga ávinnur sér rétt að nýju þegar hann hefur greitt til sjóðsins í 6 mánuði eftir að hann hefur störf að nýju.


Sjúkradagpeningar vegna barna/maka
Félagsmenn eiga rétt á dagpeningum vegna veikinda barna eða maka eftir að greiðsluskyldu atvinnurekanda lýkur.

 

Bætur frá tryggingafélögum
Í slysatilfellum þar sem til álita geta komið laun, bætur frá tryggingafélögum, skaðabætur eða aðrar slíkar greiðslur, myndast ekki réttur til dagpeninga fyrr en útséð er um að ekki komi greiðslur til annarsstaðar frá. Sjóðsstjórn er þó heimilt að veita fjárhagslega aðstoð í slíkum tilfellum enda komi þá endurgreiðsla til þegar mál er til lykta leitt.

Dagpeningar greiðast ekki þegar um varanlega örorku er að ræða, 75% eða meira og ekki til þeirra sem að njóta eftirlauna frá lífeyrissjóði.