Skip to main content

8% eða 8.385 kr. munur var á hæsta og lægsta verði á stórri matarkörfu skv. verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ þann 8. september í matvöruverslunum sem staðsettar eru í Skagafirði, á Skagaströnd og stórmörkuðum sem staðsettir eru á Akureyri.

38% eða 8.385 kr. munur var á hæsta og lægsta verði á stórri matarkörfu skv. verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ þann 8. september í matvöruverslunum sem staðsettar eru í Skagafirði, á Skagaströnd og stórmörkuðum sem staðsettir eru á Akureyri. Matvörukarfan samanstendur af 54 vörum úr öllum vöruflokkum sem voru til í öllum verslunum. Karfan var dýrust í Skagfirðingabúð(KS), 27.614 kr. og næst dýrust í Hlíðakaup, 26.873 kr. en ódýrust var hún í Bónus, 22.352 kr. 

Í vörukörfunni er tekið dæmi af innkaupum á hefðbundnum vörum til heimilisins, s.s. mjólkurvörum, kjötvörum, kornvörum, grænmeti og ávöxtum, þurrvöru og hreinlætisvörum. Karfan inniheldur vörur sem fengust í öllum þeim verslunum sem eru með í birtingunni. Vörukarfan gefur því vísbendingu um verðmun á milli verslana en nær ekki yfir allar vörur 

98% verðmunur á þorski og 142% á mýkingarefni
Þegar verð á öllum þeim 102 vörum sem voru í könnuninni er skoðað má sjá að Skagfirðingabúð var oftast með hæsta verðið, í 37 tilfellum og Hlíðakaup næst oftast, í 24 tilfellum. Hagkaup var með hæsta verðið í 23 tilfelllum og Kjörbúðin í 19 tilfellum. Bónus var oftast með lægsta verðið, í 75 tilfellum og Krónan næst oftast, í 18 tilfellum. Oftast var 20-40% munur væri á hæsta og lægsta verði, í 41 tilfelli. Í 22 tilfellum var 40-60% munur á hæsta og lægsta verði og í 19 tilfellum yfir 60% munur. 
Mikinn verðmun mátti finna í öllum vöruflokkum en hvað minnstan í flokki mjólkurvara á meðan verðmunurinn var mun meiri í öðrum vöruflokkum. Dæmi um mikinn verðmun í könnunni er 98% munur á hæsta og lægsta kílóverði af þorski. Lægst var kílóverðið í Bónus 1.098 kr. en hæst í Kjörbúðinni, 2.169 kr. Þá var 56% munur á hæsta og lægsta verði á ungnautahakki og var verðið lægst í Skagfirðingabúð, 1.598 kr. en hæst í Hagkaupum, 2.498 kr. Mikill verðmunur var á hreinlætisvörum en sem dæmi var 142% munur á hæsta og lægsta lítraverði af Lenor mýkingarefni, hæst var lítraverðið í Kjörbúðinni, 635 kr. en lægst í Bónus, 262 kr. 

Könnunin var gerð í matvöruverslunum um land allt og má sjá niðurstöður fyrir allt landið hér og fleiri verðlagskannanir á heimasíðu ASÍ: www.asi.is

Skoða nánar í töflum hér og hér

Við samanburð á milli verslana ber að athuga að hér er um mjög margar mismunandi verslanir að ræða, allt frá litlum verslunum sem þjóna neytendum í dreifbýli til stórra keðjuverslana. 

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vara sem er það verð er neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni, að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Í könnuninni er einungis um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ 

 

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is