Skip to main content

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði síðastliðinn þriðjudag matvöruverð í 15 minni matvöruverslunum á landsbyggðinni. Í ljós kom að í um helmingi tilfella var yfir 80% munur á hæsta og lægsta verði á þeim vörum sem verð var kannað á.

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði á þriðjudaginn matvöruverð í 15 minni matvöruverslunum á landsbyggðinni. Í ljós kom að í um helmingi tilfella var yfir 80% munur á hæsta og lægsta verði á þeim vörum sem verð var kannað á. Á 56 vörutegundum af þeim 103 sem kannaðar voru, var 60-140% munur á hæsta og lægsta verði og yfir 140% verðmunur á 12 vörutegundum. Mikill verðmunur var á hæsta og lægsta verði í öllum vöruflokkum. Á mörgum þeim stöðum á landinu sem verðkönnunin fór fram eru langar vegalengdir í næstu verslun og reiða margir heimamenn sig því á þær.
 
Sem dæmi um mikinn verðmun á milli verslana í könnuninni má nefna að 106% eða 1.373 kr. munur var á hæsta og lægsta kílóverði af brauðosti og 103% eða 1.183 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði af Cheeriosi. Á ungnautakjöti var 100% eða 1.597 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði, á smjöri var um 50% verðmunur og um 60-70% munur var á verði á mismunandi brauðtegundum. Þá var mikill munur á hæsta og lægsta kílóverði á þvottaefni eða 156% og 80% á kaffipúðum. 
Sem dæmi um verðmun innan vöruflokka var í flestum tilfellum um 80-100% munur á hæsta og lægsta verði á kjöti og fiski, yfirleitt um eða yfir 100% verðmunur á dósamat og þurrvöru og oft um 80-100% munur á snakki og gosi og annarri drykkjarvöru. Þrátt fyrir mikinn verðmun í öllum vöruflokkum var munurinn á verði á grænmeti hvað mestur, oft 2-300%. Miðað við þennan mikla verðmun í öllum vöruflokkum er ljóst að verðlag í verslununum getur haft mikil áhrif á heimili sem reiða sig á verslanirnar.
  
Vöruúrvalið í verslunum var mjög misjafnt. Mest var úrvalið í Skagfirðingabúð en þar fengust 94 vörur af 103 en minnst var úrvalið í Versluninni Ásbyrgi þar sem einungis 24 vörur fengust. Í nokkrum verslunum var mikið um að vörur væru ekki verðmerktar.
Í verðtöflunni sem sjá má á heimasíðu ASÍ má sjá verð á öllum vörum í könnuninni. Verðtaflan er gagnvirk. Ef ýtt er á nafnið á vöruflokknum kemur fellilisti þar sem skipta má um vöruflokk. Ef ýtt er á vöruheitin raðast verslanirnar eftir því hver er með hæsta og lægsta verðið. E merkir að varan hafi ekki verið til en em merkir að varan hafi ekki verið verðmerkt. 
 
Þrjár verslanir neituðu þátttöku í könnuninni, Melabúðin, Kassinn Ólafsvík og Kostur í Njarðvík. Við samanburð á milli verslana ber að athuga að hér er um mjög margar mismunandi verslanir að ræða, allt frá litlum verslunum sem eru í eigu einstaklinga til verslana sem eru hluti af stærri verslanakeðjum.
Um könnunina: 
Í könnuninni er einungis um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Í könnuninni var hilluverð á 103 vöru skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. 
Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Kjörbúðinni Garði, Krambúðinni Laugardal, Kr. Þorlákshöfn, Kjarval Hellu, Fjölval Patreksfirði, Hjá Jóhönnu Tálknafirði, Skerjakollu Kópaskeri, Urð Raufarhöfn, Versluninni Ásbyrgi, Dalakofanum Laugum, Hlíðakaup Sauðarkróki, , Skagfirðingabúð Sauðárkróki (KS), Jónsabúð Grenivík, Kauptúni Vopnafirði, Hraðbúðinni Hellissandi, Kassanum Ólafsvík, Kosti Reykjanesbæ og Melabúðinni.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
 
Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is