Skip to main content

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga skrifaði grein sem birtist á heimasíðu Starfsgreinasambands Íslands í gær og er grein hans svar við grein Þórdísar K. Gylfadóttur þingmanns um fátækt á Íslandi.

Í blaðagrein sem þingmaðurinn Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir skrifar í MBL segir að fátækt á åslandi væri lítil í alþjóðlegum samanburði. Í því samhengi var fátækt hér á landi borin saman við fátækt í Svíþjóð og horft aftur til ársins 2014. Má lesa úr orðum þingmannsins að í velferðarríki sé fátækt sjálfsagt og eðlilegt fyrirbæri.

Allt frá árinu 2010 hafa stjórnvöld markvisst dregið úr og skorið niður í tekjutengdum greiðslum frá ríkissjóði. Nægir þar að nefna stórskertar barna- og vaxtabætur. En viðmiðunarmörk þeirra hafa verið skorin inn að beini þannig að fólki er beinlínis refsað fyrir að reyna bjarga sér. Þá hefur stóra skattatilfærslan leikið tekjulága mjög illa. Frá árinu 2011 hafa stjórnvöld markvisst fært aukna skattbyrði frá ríkum yfir á fátæka. Stóra skattatilfærslan í bland við aukin skerðingarmörk í tekjutengdum greiðslum á vegum ríkissjóðs er megin orsök fyrir neikvæðum kaupmætti hjá tekjulágum. Sem dæmi má benda á að samkvæmt skýrslu Hagdeildar ASÍ frá 2016 þarf sambúðarfólk sem á 20% í eigin húsnæði og er með tvö börn á framfæri um 87% tekjuaukningu til að standa jafnfætis og 1998. Með þeim hætti hafa stjórnvöld fært stórauknar byrðar yfir á launafólk, byrðar sem nú er brýnt að skila til baka.

Hvernig er hægt að fullyrða að þrátt fyrir þær gríðarlegu tilfærslur sem stjórnvöld hafa gert í skattakerfinu auk breyttra skerðingamarka hafi orðið víðtæk kaupmáttaraukning á íslenskum vinnumarkaði? Hjá tekjulágum hafa þessar neikvæðu breytingar á sköttum, barna- og vaxtabótum haft gríðarlega neikvæð áhrif á framfærslu. Með þeim hætti eru stjórnvöld í raun að búa til fátækt á Íslandi. Það er hinn blákaldi raunveruleiki sem engin meðaltöl eða samanburður mun lækna.

Staðan er sú að fátækt á åslandi hefur verið að aukast hratt undanfarin ár og virðist vera að festa sig í sessi,  en samkvæmt þingmanninum búa 6% þjóðarinnar  nú við fátækt, eða u.þ.b. 20 þúsund einstaklingar og má leiða líkum að mun fleiri búi við fátæktarmörk! Fullyrðingar um annað sýna hve þingmaðurinn er illa meðvitaður um hinn kalda raunveruleika sem blasir við launafólki á åslandi. Stjórnvöld eru í dauðafæri til að koma fram með leiðréttingu á stóru skattatilfærslunni sem innlegg í kjaraviðræður. Á sama hátt er dauðafæri til að rétta af skerðingarmörk í tekjuöflunarkerfum. Með þeim hætti legðu stjórnvöld sitt af mörkum til að hægt verði að lifa af lægstu launum. Með þeim hætti væri kominn grundvöllur til að ná kjarasamningum þar sem allir gætu orðið sigurvegarar.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is