Skip to main content

Verðlagseftirlit ASÍ vill benda á að minni samkeppni sé á mjólkurvörumarkaði en á markaði með flestar aðra matvörur og að það hafi áhrif á að mjólkurvörur hafi hækkað umfram aðra matvöru. Verð á annarri innlendri matvöru hefur nánast staðið í stað á undanförnum misserum á meðan mjólkurvörur hafa hækkað um 7,4%.

Verðlagseftirlit ASÍ vill benda á að minni samkeppni sé á mjólkurvörumarkaði en á markaði með flestar aðra matvörur og að það hafi áhrif á að mjólkurvörur hafi hækkað umfram aðra matvöru. Verð á annarri innlendri matvöru hefur nánast staðið í stað á undanförnum misserum á meðan mjólkurvörur hafa hækkað um 7,4%.

Í tilkynningu frá Landssambandi kúabænda eru verðhækkanir á mjólkurvörum raktar til verðlagsnefndar búvara. Hið rétta er að verðlagsnefnd ákveður verð á örfáum mjólkurvörum svo sem mjólk, rjóma, ákveðinni tegund af osti og hreinu skyri. Mjólkurvörur á markaði eru margfalt fleiri og verðlagsnefnd hefur ekkert að gera með verðlagningu á flestum þeirra. Vísitalan tekur tillit til hækkana á öllum mjólkurvörum, ekki einungis þessum örfáu sem verðlagsnefnd ákveður verð á. Verðhækkanir síðustu tveggja ára verða því ekki útskýrðar með þessari breytu. Þá má nefna að vinnslustöðvum og kúabúum hefur fækkað á síðustu árum og þau stækkað sem hefur gert það að verkum að mikil hagræðing hefur orðið í greininni. Hagræðingin virðist hins vegar ekki skila sér til neytenda.

Mjólkurframleiðendur eru undanþegnir ákvæðum samkeppnislaga um sameiningu fyrirtækja og samráð um verðlagningu sem gerir það að verkum að einungis tveir aðilar, Mjólkursamsalan og Kaupfélag Skagfirðinga, stjórna mjólkurmarkaði hér á landi. Þar að auki er tollur á innflutning á mjólkurvörum svo hár að það kemur í flestum tilfellum í veg fyrir að innflutningur borgi sig. Því er ekki hægt að tala um að samkeppni ríki á íslenskum mjólkurmarkaði, hvorki innlend né erlend heldur einkennist markaðurinn af einokun eða í besta falli fákeppni. Framleiðendur fá ekki það aðhald sem samkeppni skapar sem leiðir til hærra verðs fyrir neytendur og minni nýsköpunar. Þá var Mjólkursamsalan, sem er stærsti framleiðandi mjólkurvara og eitt stærsta matvælafyrirtæki landsins, nýlega dæmd til greiðslu 40 milljón króna sektar fyrir brot á samkeppnislögum. Það skýtur því skökku við þegar Landssamband kúabænda segir í tilkynningu sinni að „samkeppni hafi aukist verulega á undanförnum árum“.

Þá vekur það athygli að Landssamband kúabænda sjái ástæðu til að taka launahækkanir sérstaklega fram sem ástæðu verðhækkana á mjólkurvörum. Mjólkurframleiðendur sitja við sama borð og aðrir atvinnurekendur hvað launahækkanir varða og geta því ekki skýrt hækkun á verði mjólkurvara umfram aðra matvöru með launahækkunum.

Að lokum má nefna að í skýrslu Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands um íslenska mjólkurvörumarkaðinn frá árinu 2015 er fullyrt að lækkun tolla og og aukin samkeppni á mjólkurvörumarkaði myndi lækka verð til neytenda og stuðla að nýsköpun innan greinarinnar.

Allt ýtir þetta undir mikilvægi þess að gripið verði til aðgerða til að stuðla að samkeppni á markaði með mjólkurvörur sem yrðu til mikilla hagsbóta fyrir neytendur og greinina sjálfa.

Close Menu

Aldan Stéttarfélag

Borgarmýri 1
Sauðárkróki
Ísland

T: 453 5433
E: skrifstofa@stettarfelag.is